154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

breyting á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga.

864. mál
[15:52]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og umræðurnar hér í dag. Það eru atriði sem mig langar aðeins að víkja að í máli hv. þingmanns. Hv. þingmaður ræddi um hámarkslengd mata sem væru 12 mánuðir. Hér er um einhvern misskilning að ræða því að það er talað um 12 mánuði sem sé hámarkslengd greiðslu í sjúkra- og endurhæfingargreiðslum. Þannig að þegar kemur að samþætta sérfræðimatinu þá er það eitthvað sem Tryggingastofnun metur hverju sinni líkt og hún gerir í dag. Að auki fórum við þá leið að ef það er talið bersýnilega óþarft að mati Tryggingastofnunar að viðkomandi einstaklingur fari í gegnum mat vegna þess að það er greinilegt að viðkomandi verður ekki fær um að stunda vinnu, þá þarf viðkomandi ekki að fara í mat. Þannig að það er verið að mæta þarna sérstaklega ákveðnum hópi sem bersýnilega þarf ekki að fara í mat.

En síðan langar mig að koma aðeins að þessu varðandi hækkanir og hversu mikið fólk er að hækka. Í fyrsta lagi hvað varðar aldursviðbótina og heimilisuppbótina þá erum við þar að draga í raun úr vægi þessara tveggja þátta þannig að hægt sé að hækka grunninn meira en við annars hefðum getað gert. Það er jákvætt vegna þess að það nýtist þeim sem búa með öðrum, en það hefur verið gagnrýnt að þau hafi dregist aftur úr, að þau sem hafa búið ein hafi hækkað meira á undanförnum árum. Þannig að ég held að það sé ákveðin sanngirni í þessu. Síðan er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að þó svo að vægi aldursviðbótarinnar og heimilisuppbótarinnar sé að minnka þá er fólk ekki að lækka á milli kerfa heldur að hækka. Þar má benda á að um 45% þeirra sem færast á milli kerfanna eða við kerfisbreytinguna hækka um meira en 50.000 kr. á mánuði.