154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

breyting á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga.

864. mál
[16:22]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir fyrirspurnina. Nei, það er ekki svo að við séum að reyna að púkka upp á milljónamæringa hérna, það er ekki þannig. Þessar 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust, það er verið að tala um lágmarksútborgun fyrir fólk sem annars væri með 300.000 kr., 285.000 kr. t.d., ef það lendir á milli skips og bryggju miðað við þetta frumvarp, eða 370.000 kr., og að það verði ekki skattlagt. Þannig að einstaklingur með 400.000 kr. verður ekki skattlagður en um leið og hann er kominn yfir það þá er það að sjálfsögðu önnur saga. Hvernig ríkissjóður — við erum búin að tala um að þetta verði meira og minna fjármagnað með fallandi persónuafslætti. Þeir sem eru komnir — þetta er náttúrlega bara mælistika sem hægt er að stilla af eftir því sem þurfa þykir til að ná sem mestri hagræðingu og mestum árangri án þess að þurfa að líta til ríkissjóðs að einu eða neinu leyti. Við teljum að þetta sé kerfi sem geti algerlega orðið sjálfbært í því að við færum persónuafsláttinn — þetta eru ríflega 60.000 kr. á mánuði sem við erum að fá í persónuafslátt — til þeirra sem þurfa á honum að halda. Og 400.000 kr. lágmarksframfærsla á ekki við um milljónamæringa eða fólk sem er með háar tekjur, bara alls ekki. Þetta eru allt saman útfærsluatriði. Hugmyndir liggja á borðinu, aðferðafræðin liggur á borðinu en útfærslan er okkar. Ef tekið er utan um málið af einhverjum virkilegum vilja teljum við að við eigum að geta komið öllum í 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust. Það er nú þannig sem við lítum á það og okkur þykir það í raun engin ofrausn með tilliti til þess að hér er fólk að greiða á bilinu 250.000–380.000 kr. fyrir þriggja herbergja íbúð á almennum leigumarkaði.