154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

efling landvörslu.

110. mál
[18:01]
Horfa

Flm. (Jódís Skúladóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um eflingu landvörslu en hún var áður lögð fram á 153. löggjafarþingi. Þingsályktunin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að hlutast til um að gerð verði markviss áætlun um eflingu landvörslu. Sérstök áhersla verði lögð á fjölgun starfa og heilsársstöðugilda í landvörslu með auknu fjármagni. Við áætlunargerðina verði skoðað hvort þörf sé á endurskipulagningu verkefna í landvörslu.“

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir m.a. um mikilvægi og störf landvarða:

Störf þeirra eru margbreytileg en það ræðst m.a. af fjölbreyttri náttúru, ólíkum fjölda og samsetningu ferðamanna og mismunandi aðstæðum á svæðum. Mikil fjölgun ferðamanna undanfarin ár hefur í för með sér aukin verkefni og víða er ágangur á viðkvæm svæði kominn að þolmörkum. Landverðir skipa lykilhlutverk í umsjón og eftirliti með svæðum en einnig fræðslu og upplýsingagjöf.

Það má líta á landverði sem vita í landslagi því þeir gegna sams konar hlutverki gagnvart vegfarendum og siglingamerki gera fyrir skip á hafi á leið í höfn. Þá eru ýmis önnur verkefni eins og daglegur rekstur og umsjón í samræmi við stjórnunar- og verndaráætlanir. Landverðir sinna fræðslu og upplýsingagjöf, sinna eftirliti á náttúruverndarsvæðum ásamt því að taka á móti gestum í gestastofum. Landverðir hafa ólíka menntun og reynslu en áhugi á náttúru og landvernd sameinar hópinn í starfi. Mikið fjölgar í hópi landvarða yfir sumarmánuðina en ég tel einboðið að gera verði betur í þeim efnum til að mæta aukinni viðveru og fjölda ferðamanna.

Meðal þrálátra verkefna sem landverðir þurfa að takast á við er utanvegaakstur á hálendi Íslands innan friðlanda og þjóðgarða. Utanvegaakstur er bannaður skv. 1. mgr. 31. gr. náttúruverndarlaga, með örfáum undantekningum sem kveða þó á um að ekki hljótist náttúruspjöll af. Þótt áhrif utanvegaaksturs séu ólík eftir svæðum og aðstæðum má með sanni segja að slíkt rask sé alltaf alvarlegt. Langtímaafleiðingar á ásýnd og vistkerfi hálendis Íslands koma okkur öllum við. Það er mikilvægt að við sýnum ábyrgð gagnvart þessu málefni, ekki síst í ljósi þess umhverfis sem og þeirrar skörunar á stjórnsýslu sem er undir vegna utanvegaaksturs, en mismunandi aðilar bera ábyrgð á uppbyggingu, eftirliti og viðhaldi vega á hálendinu. Þannig falla t.d. þjóðlendur undir forsætisráðuneyti, jarðir í ríkiseigu heyra undir fjármála- og efnahagsráðuneyti og friðlýst svæði falla undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti. Umhverfisstofnun fer svo með eftirlit með framkvæmd laganna og veitir m.a. leyfi og umsagnir samkvæmt ákvæðum þeirra. Landverðir þurfa því í ofanálag að þekkja inn á flókna stjórnsýslu. Þrátt fyrir það hefur einna áhrifaríkast verið að nota forvirkar aðferðir, nýta landverði til að upplýsa fólk og reyna þannig að hafa áhrif og koma í veg fyrir skemmdarverk sem oft eru framin af gáleysi eða af því að fólk áttar sig ekki á reglunum og afleiðingum sem brot á þeim hafa. Þessi aðferð hefur borið góðan árangur á ýmsum svæðum innan Vatnajökulsþjóðgarðs, til að mynda við Kreppubrú á norðurhálendinu þar sem vegalandvarsla hefur verið til staðar sem og í samstarfi Umhverfisstofnunar og Vatnajökulsþjóðgarðs að Fjallabaki. Þannig hefur aðkoma landvarða dregið úr utanvegaakstri á svæðum þrátt fyrir mikla fjölgun ferðamanna á undanförnum árum. Til þess að standa vörð um íslenska náttúru, eina af okkar mikilvægu auðlindum, er ljóst að efla verður landvörslu á markvissan hátt og fjölga landvörðum bæði á háannatíma og á heilsársgrundvelli.