154. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2024.

Störf þingsins.

[10:54]
Horfa

Kristinn Rúnar Tryggvason (F):

Virðulegur forseti. Byggðamál eru mér ofarlega í huga eins og einhvern er líklega farið að gruna eftir veru mína hér. Grímsstaðir á Fjöllum eru gott dæmi um hversu mikið byggðir skipta máli. Þær eru taldar í hundruðum björgunarferðirnar sem ábúendur þar hafa farið, langoftast í veðri þar sem flestir myndu kjósa að halda sig inni. Þau eru mörg lífin sem ábúendur þar hafa bjargað. Það er nefnilega þannig að ábúendur í dreifðustu byggðunum eru í senn björgunarsveitarmenn, landverðir og oft á tíðum gestgjafar.

Verkefnið Brothættar byggðir hefur verið starfrækt um nokkurt skeið og er vissulega skref í rétta átt. Það kemur hins vegar of seint þar sem ástandið er verst og er ýmsum annmörkum háð. Nú þarf að gera átak í að verja þær byggðir sem tæpast standa auk þess að styðja við landbúnað sem er oftast hryggjarstykkið í þeim byggðum. Skattkerfinu þarf að beita í þágu brothættra byggða til að laða að fólk og fyrirtæki rétt eins og gert er í kringum okkur, bæði í Noregi og innan ESB. Það er víða vandamál að fá heilbrigðisstarfsfólk, skólastjórnendur og kennara á fámennustu svæðin. Eftirgjöf á námslánum og skattaívilnanir fyrir fólk og fyrirtæki gætu hjálpað í þessu stóra hagsmunamáli okkar allra. Fólk leitar tækifæranna og stjórnvöld geta stuðlað að því að þau séu til staðar víðar en á suðvesturhorninu. Ásamt þessu þarf að jafna kostnað við það að búa í dreifðari svæðum, þar með talið raforkukostnað, kostnað við að sækja heilbrigðisþjónustu og aðra þjónustu og jafnvel menningu. Allt þetta er fyrir tilstilli stjórnvalda.