154. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2024.

friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja.

117. mál
[11:14]
Horfa

Flm. (Jódís Skúladóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir andsvarið. Ég get alveg tekið undir það að það er ákveðinn tvískinnungur í því að leyfa kjarnorkuknúin farartæki á sama tíma og við erum að leggja þetta fram. En af því að hv. þingmaður segir hluti þingflokks þá ætla ég nú að byrja á því að segja að það er minn skilningur að allur þingflokkurinn standi mjög á bak við þetta frumvarp og eins og fram kom í máli mínu er verið að leggja málið fram í átjánda sinn og það er þá væntanlega hv. þingmanni ekki alveg ókunnugt. En ég held að það sé bara þannig að við erum þátttakendur í alþjóðlegu starfi á mörgum sviðum. Sú ákvörðun að leyfa hér kjarnorkuknúna kafbáta var ekki að mínu skapi en það er hluti af því að vera partur af heimsþorpinu, taka þátt í alþjóðlegu samstarfi, hvort sem það er Atlantshafsbandalagið eða einhvers konar annað samstarf. Við þurfum stundum að gera meira en gott þykir og ég held að það væri mjög sterkt fyrir okkur að nú í átjánda sinn næði þetta fram að ganga og ég held að það fari alveg saman með, eins og ég kom inn á í ræðu minni, að Ísland, íslensk stjórnvöld hafa í sameiningu verið mjög skýr um sína afstöðu til ástandsins fyrir botni Miðjarðarhafs og í Úkraínu og við höfum sem eining talað fyrir friði.