154. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2024.

félagsleg aðstoð.

145. mál
[13:11]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Herra forseti. Enn og aftur er það Flokkur fólksins sem sýnir það í verki að hann er skjöldur og hlíf þeirra sem þurfa á aðstoð að halda. Enn og aftur sýnir Flokkur fólksins að hann varð eingöngu til til þess að taka utan um þá sem þurfa á hjálp að halda. Þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, er um bifreiðastyrki. Með mér á þessu frumvarpi er gjörvallur Flokkur fólksins að sjálfsögðu, enda erum við hér í hjartastöð Flokks fólksins, flokksins sem er að taka utan um þá sem þurfa á hjálp að halda: Guðmundur Ingi Kristinsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson. Ég skil ekki alveg út af hverju allir þiggja það ekki að vera meðflutningsmenn á svona góðum málum. Ég næ því bara ekki.

1. gr. frumvarpsins hljóðar svo:

„10. gr. laganna orðast svo:

Heimilt er að greiða elli- og örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar. Þá er heimilt að veita uppbót til framfærenda hreyfihamlaðra barna sem njóta umönnunargreiðslna. Með líkamlegri hreyfihömlun er átt við sjúkdóm eða fötlun sem skerðir færni til að komast ferða sinna þannig að göngugeta án hjálpartækja er að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu.

Uppbót er eingöngu heimilt að veita þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

1. Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður eða persónulegur aðstoðarmaður sem starfar samkvæmt samningi um notendastýrða persónulega aðstoð, sbr. lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

2. Mat á hreyfihömlun liggur fyrir.

Fjárhæðir uppbóta eru eftirfarandi:

1. 535.000 kr. til þeirra sem uppfylla framangreind skilyrði.

2. 1.070.000 kr. til þeirra sem uppfylla framangreind skilyrði og eru að kaupa bifreið í fyrsta sinn.“

Sá sem kaupir bifreið í fyrsta sinn er að fá rúma milljón. Það er svolítið mikið annað, þessi styrkur er búinn að vera í handbremsu árum saman og hefur ekkert hækkað og ekki fylgt neinni launaþróun, hvorki fylgt hækkun á bifreiðum eða þjónustu eða neinu öðru. Hins vegar er allt í lagi að vera með kjaragliðnun, vaxandi kjaragliðnun gagnvart í rauninni framfærslugetu þessara einstaklinga sem hér um ræðir. Hér segir einnig að kaupverð bifreiðar skuli ekki vera lægra en fjárhæð uppbótar að teknu tilliti til niðurfellds vörugjalds þegar það á við. Uppbót er heimilt að veita á fimm ára fresti, eins og er í rauninni nú, vegna sama einstaklings. Heimilt er að greiða styrk áður en gengið er frá kaupum bifreiðar ef upplýsingar um kaupverð liggja fyrir.

Þetta er algjör grundvallarbreyting. Núna þarftu í rauninni að vera búinn að kaupa bifreiðina áður en þú færð styrkinn. Það er náttúrlega mjög snúið, ekki satt, herra forseti, fyrir fátækt fólk sem ætlar að sækja um styrk. Þú þarft eiginlega að vera búinn að fjárfesta í bifreiðinni áður en þú færð greiddan styrkinn. Þannig að raunverulega getur þú aldrei keypt bílinn nema þú fáir einhvern aðstandanda eða einhvern til að hjálpa þér eða einhvern til að leppa fyrir þig upphæðina rétt á meðan þú ert að bíða eftir að fá hana greidda.

Hér erum við að tala um að þegar þetta hefur verið ákveðið, þú ert búinn að ákveða hvaða bíl þú vilt kaupa, við hvern þú ætlar að skipta, þá færðu bara kvittun og allt upp á það að gera þannig að greiðslan fer fram frá Tryggingastofnun til þess aðila sem þú ætlar að kaupa bílinn af. Það þarf aldrei að vera að mála allt þannig að hugsanlega væri hægt að taka peninginn í eitthvað annað. Það er ekkert þannig sem er í gangi hér yfir höfuð. En allir þessir varnaglar, eins og t.d. að þú þurfir að vera búinn að kaupa bílinn áður en þú færð styrkinn — við erum ekki þar. Kauptu bílinn og þú færð styrkinn um leið og þú ert búinn að velja bílinn, þú þarft ekki að vera búinn að snara út fyrir honum fyrst.

Ég ætla ekki að fara að lesa allt frumvarpið, þetta er nú einum of ítarlegt en ég ætla fara inn í þann þátt í frumvarpinu þar sem stendur: „Styrkir til kaupa á bifreiðum. Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er skert“. Það er eins og ég sagði hér áðan í lagagreininni sjálfri. Hér eru aðrar upphæðir. Það er heimilt er að greiða styrk samkvæmt 1. mgr. áður en gengið er frá kaupum bifreiðar — sem ég ítreka að skiptir öllu máli — ef upplýsingar um kaupverð liggja fyrir. Ég ítreka að þetta skiptir öllu máli. Styrkur skal vera 2.135.000 kr., og skal veittur þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt, sem eru talin hér upp.

Þetta er í rauninni hærri styrkurinn sem ég held að sé nú eitthvað í kringum 1.300.000 kr. Við höfum framreiknað þetta samkvæmt vísitölu og við viljum tryggja það í Flokki fólksins að þetta verði bundið vísitölu, það verði þannig að styrkirnir hækki í takt við annað í samfélaginu og séu ekki alltaf eins og skaðabætur og alls konar greiðslur sem fólk á rétt á, þær eru venjulega í einhverri handbremsu og fá ekki að fylgja vísitölu eða þróun neysluverðs. Það er sama gamla lumman. Þetta er eins og með núgildandi 62. gr. almannatryggingalaga, áður 69. gr., sem kveður skýrt á um það t.d. að tekjur skuli fylgja launaþróun í landinu. Þegar þessi leiðrétting er að koma til almannatryggingaþega, öryrkja og eldra fólks, 1. janúar ár hvert, þá á í rauninni að vera búið að gera ráð fyrir því hver launaþróun í landinu var á árinu á undan. Hver var launaþróunin? En það er ekki gert. Það er farið eftir vísitölu neysluverðs eða sú vísitala er alltaf valin af ríkisvaldinu sem er lægri, sem klekkir frekar á viðkomandi, sem dregur úr því að viðkomandi geti fylgt launaþróuninni og fylgt þeirri vísitölu sem hann raunverulega þarf til að geta framfleytt sér að einhverju leyti.

Þessi kjaragliðnun sem ég er að tala um hefur verið að aukast mjög mikið frá efnahagshruninu 2008 og hún er að nálgast hátt í 100.000 kr. á mánuði, herra forseti. Það er hátt í 100.000 kr. á mánuði sem þessi kjaragliðnun er orðin gagnvart þeim sem síst skyldi og þurfa mest á krónunum að halda. Að hugsa sér. Svona er Ísland í dag. Svo er maður að lesa fréttir um það að einhver forstjóri var með 355 milljónir í árstekjur í fyrra. Þvílíkt óréttlæti. Þvílíkt samfélag. Ísland best í heimi.

Ég hvet ykkur til að kynna ykkur frumvarpið sem er fyrst og síðast um styrki til kaupa á sérútbúnum bifreiðum og slíku og það er heimilt að veita styrk til kaupa á bifreið sem nemur allt að 60–70% af kaupverðinu. Það er grunnverð án aukabúnaðar ef um er að ræða einstakling sem ekki kemst af án sérútbúinnar bifreiðar vegna fötlunar sinnar. En þá dettur mér í hug að nefna það, við vorum að tala um hérna rétt áðan hvað það er gott að eldast og annað slíkt, að kona sem er búin að vera ítrekað í sambandi við mig, fullorðin kona, hefur í rauninni grátbeðið mig um hjálp ef ég gæti veitt hana. Hvað liggur henni á hjarta? Jú, hún segir: Ég er í ferðaþjónustu eldri borgara. Ég get hringt í ferðaþjónustu og fengið að láta aka mér gegn vægu gjaldi 15 ferðir í mánuði. Að öðru leyti kemst ég ekki neitt. Ég er í hjólastól og ég get ekið bifreið. Ég er í hjólastól hér heima en ég get ekið bifreið og ég á bifreið en mér er gert ómögulegt að nýta hana vegna þess að Sjúkratryggingar hafa hafnað því að ég fái annan hjólastól og lyftu og ég sé gerð sjálfbær í því að geta hjálpað mér sjálf. Mér er hafnað þrátt fyrir fullan vilja og þrátt fyrir að ég sé að upplifa mikla einangrun, félagslega einangrun, og myndi nýta mér það mun meira að fara út á meðal manna ef Sjúkratryggingar Íslands myndu styrkja mig til þess.

Það sem ég er að segja er að það er alveg sama hvert litið er í þessu kerfi. Það er alltaf fjöldi fólks sem síst skyldi sem lendir á milli skips og bryggju og fær ekki stuðning og fær ekki þá hjálp sem það þarf nauðsynlega á að halda til að geta tekið þátt í samfélaginu og látið sér líða vel. Síðan verða þessir einstaklingar andlega niðurbrotnir, félagslega einangraðir, þurfa meira á heilbrigðiskerfinu að halda, þurfa að borða meira af kvíðalyfjum og vanlíðunarlyfjum og öðru slíku. Það er enginn sem gerir heildstæða úttekt á því hversu alvarlegar afleiðingar það hefur, fyrst alltaf er verið að hugsa um excel-skjalið og greiðslur ríkissjóðs í hina og þessa þjónustuna, og hversu alvarlega þetta gengur gegn því að veita fólki raunverulega hjálp og gegn því að viðhafa sparnað og almennilega umsýslu með fjármununum okkar, með heilbrigðisþjónustunni, með öllu. Heilbrigðisþjónustan stendur hér á brauðfótum. Það vantar fólk. Þú hringir í heimilislækni og þú getur fengið tíma hjá honum eftir þrjá mánuði. Í rauninni getur maður næstum því sleppt því að hringja í heimilislækni. Þú verður bara að nýta Læknavaktina ef eitthvað er að þér því væntanlega er enginn að hringja og biðja um tíma hjá heimilislækni þrjá mánuði fram í tímann af því að þá þarf hann á honum að halda. Það virðist vera að þegar einstaklingurinn þarf á heimilislækninum að halda og þarf að koma til hans þá getur læknirinn kíkt á hann eftir þrjá mánuði. Þá er viðkomandi annaðhvort dauður eða búinn að ná sér bara sjálfur eða hefur verið það forsjáll að nýta sér Læknavaktina sem er öllum aðgengileg, alltaf seinni partinn á daginn.

Hér ætlum við sem sagt að aðstoða fólk við að kaupa bíl og við ætlum að gefa þeim tækifæri til þess að styrkurinn komi um leið og það er búið að velja bílinn og ákveða kaupin á bílnum. Þá fær það styrkinn, ekki eftir á. Við ætlum frekar að reyna að gera fólki kleift að kaupa bílinn heldur en að reyna að standa í vegi fyrir því eins og löggjöfin virkar í dag. Við í Flokki fólksins höfum hækkað allar tölur, eins og ég sagði áðan, til samræmis við þróun á vísitölu neysluverðs frá því um hrun. Það er orðið löngu tímabært, náttúrlega, eðli málsins samkvæmt að breyta þessum tölum. En það kostar. Það kostar peninga og þessum peningum er talið ekki nógu vel varið í fatlað fólk sem þarf á hjálpinni að halda. Við snörum nú frekar út rúmum 2 milljörðum í snobbpartí í Hörpu yfir eina helgi heldur en að snara 2 milljörðum í það að taka utan um sérstakar stuðningsþarfir við fatlað fólk.

Herra forseti. Ég er sá þingmaður sem lætur ekki segja við mig: Þú skalt ekki bera saman þetta versus hitt, að eitt sé ekki til að koma í veg fyrir annað. Það er rangt. Það er alrangt. Við verðum að átta okkur á því að ríkissjóður er takmörkuð auðlind og það er algjörlega á forræði þessarar ríkisstjórnar hvernig hún forgangsraðar þeim fjármunum, algjörlega á forræði þessarar ríkisstjórnar. Kjörorð Flokks fólksins er fólkið fyrst, svo allt hitt. Það er aldrei of oft kveðið að ítreka það líka við hæstv. ríkisstjórn að hætta að skattleggja fátækt fólk. Það er þjóðarskömm að skattleggja fátækt fólk. Það er líka önnur þjóðarskömm að koma ekki þessu fátæka fólki til hjálpar með stuðningi og því styrkjakerfi sem þó hefur verið komið á og nauðsynlegt að fylgja eftir ef eitthvað á að vera að marka öll þau fögru fyrirheit sem við þurfum að heyra hér klingjandi daginn út og inn sem í raun og veru eru allt orð á borði en engar gjörðir.