Yfirlýsing forsætisráðherra og umræður um hana.
Forseti. Hæstv. forsætisráðherra er í þeirri stöðu að 75% þjóðarinnar treysta honum síst til að gegna ráðherraembætti. Spurður hvort hann nyti nægjanlegs trausts í samfélaginu til að gegna stöðu forsætisráðherra í fjölmiðlum nýverið svaraði hann, með leyfi forseta:
„Ég hyggst haga verkum mínum í forsætisráðuneytinu þannig að það megi verða til þess að efla og viðhalda trausti á ríkisstjórninni heilt yfir.“
Það er sannarlega verk að vinna í þeim efnum, virðulegi forseti, því að áður en nýjasta útgáfan af ríkisstjórninni tók við mældist hún með 30,7% stuðning. Frá því að sú mæling var gerð hefur vinsælasti ráðherra ríkisstjórnarinnar hætt og fjöldi undirskrifta gagnvart núverandi forsætisráðherra nálgast íbúafjölda Garðabæjar óðfluga. Því vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hversu lágt þarf traustið að verða til þess að ráðherrann líti svo á að þjóðin hafi fengið nóg af þessu stjórnarsamstarfi? Hversu lágt þarf traustið að verða til þess að hæstv. ráðherra skili lyklunum?