Yfirlýsing forsætisráðherra og umræður um hana.
Virðulegi forseti. Aftur: Við ætlum að klára þingmálin sem eru fyrir þessu þingi og eru gríðarlega mikilvæg, löngu tímabærar breytingar, breytingar sem við höfum talað fyrir í mörg ár sem ekki hefur tekist fullnægjandi samstaða um. Margir hafa í þessum þingsal lagst gegn sumum þessara tillagna í fortíðinni en eru núna komnir á vagninn. Það er gott mál. Þessum breytingum verður hrint í gegn á þessu þingi. Beint í kjölfar þess ætlum við að fara yfir útlendingalögin og aðlaga lögin að þeim veruleika sem við búum við í dag vegna þess að þessi heildarlög voru sett í þverpólitísku samráði fyrir nokkrum árum síðan við allt aðrar aðstæður en eru uppi í dag, t.d. á landamærunum. Það er þess vegna afar brýnt að vinnan haldi áfram. Til þess stendur hugur dómsmálaráðherra. Til þess hefur hún líka ríkan stuðning og okkar hugur stendur til þess að tryggja að hér séu ekki reglur sem eru á skjön við það sem er að gerast þessa dagana á Norðurlöndunum vegna þess að þau hafa staðið frammi fyrir sambærilegum vandamálum og við eigum að læra af þeim.