154. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2024.

Yfirlýsing forsætisráðherra og umræður um hana.

[16:09]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Þegar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var mynduð haustið 2017 var yfirlýst markmið hennar að koma á pólitískum stöðugleika og efla traust á stjórnmálum. Þannig réttlætti þessi meinti róttæki vinstri og græni flokkur að leiða Sjálfstæðisflokkinn aftur til valda þrátt fyrir að spillingarmál honum tengd hafi orðið síðustu tveimur ríkisstjórnum þar á undan að falli. Stöðugleikinn margumræddi virtist þó helst felast í því að klára kjörtímabilið sama hvað á dyndi, burt séð frá því hvort einhverjum raunverulegum árangri yrði náð. Stjórnarsamstarfið var af mörgum álitið svik við kjósendur VG sem síst af öllu kusu þau til að gegna hlutverki öndunarvélar fyrir aðframkomið valdakerfi helmingaskiptastjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Réttlætingin þá, rétt eins og þegar sama ríkisstjórn endurnýjaði samstarf sitt árið 2021, var sú að það skipti máli hver stjórnar, að það skipti máli að VG leiddi þessa ríkisstjórn og að konan, sósíalistinn Katrín Jakobsdóttir, væri einmitt sú sem leiddi hana. Nú þegar Katrín Jakobsdóttir hefur skilað Bjarna Benediktssyni lyklunum að Stjórnarráðinu og gengið frá borði, hver er réttlætingin nú?

Forseti. Formaður Framsóknarflokksins og nýskipaður hæstv. fjármálaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, lýsti meintum árangri ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur með eftirfarandi hætti í gær, með leyfi forseta:

„Fyrir utan það að skapa hinn margeftirsótta og þráða pólitíska stöðugleika sem við gerðum þá þegar árið 2017 og höfum viðhaldið, þá hefur verið meira og minna efnahagslegur stöðugleiki þó að vissulega séu áskoranir fólgnar í þeirri verðbólgu sem verið hefur undanfarin misseri.“

Hann er nú meiri brandarakarlinn, hæstv. fjármálaráðherra. Eða kannski telst það efnahagslegur stöðugleiki að verðbólgan sé stöðugt alvarlegt vandamál. Kannski telst það efnahagslegur stöðugleiki að verð á húsnæði hafi hækkað stöðugt síðan 2020, um heil 29% á landsvísu og enn meira á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Kannski telst það efnahagslegur stöðugleiki að vextir hafi hækkað stöðugt frá síðustu kosningum, ekki nema það teljist efnahagslegur stöðugleiki að vaxtagjöld ríkisins séu hlutfallslega þau næsthæstu í Evrópu allri og hafa verið lengi. Það er auðvitað grátbroslegt, virðulegi forseti, að forystumenn þessarar ríkisstjórnar séu sammála um að einmitt þetta sé efnahagslegur stöðugleiki.

Svo er það pólitíski stöðugleikinn sem við erum svo stolt af. Forsætisráðherra sagði rétt í þessu að framtakssemi fólks þrífist best í pólitískum stöðugleika. Ég er sammála ráðherranum. En pólitíski stöðugleikinn er samt ekki meiri en svo að annan hvern mánuð þurfum við að þola raunveruleikasjónvarpið „Heldur ríkisstjórnin velli?“. Við fylgdumst með þeim taka hópefli á Þingvöllum í kjölfar afsagnar þáverandi fjármálaráðherra, fyrrverandi utanríkisráðherra og núverandi forsætisráðherra, og tilkynna okkur svo við hátíðlega athöfn að þeim fyndist réttast fyrir stöðugleikann að ætla ekki að hætta saman þó að það væri eiginlega ekkert gaman saman lengur. Örfáum vikum síðar sáum við þau svo skjálfa á beinunum þegar útlit var fyrir að greiða ætti atkvæði um vantrauststillögu á hendur þáverandi matvælaráðherra og núverandi innviðaráðherra vegna þess að annar hver maður í Sjálfstæðisflokknum vildi endilega velta ráðherra í eigin ríkisstjórn úr stóli. Dramað náði síðan nýjum hæðum þegar leiðtogi ríkisstjórnarinnar sagði upp og gekk út úr stjórnarsamstarfinu sem hún leiddi flokk sinn inn í fyrir að verða sjö árum síðan. Leiðtoginn sem stöðugt hamraði á því að það skipti máli hver stjórnaði, nefnilega hún, labbaði út. Pólitíski stöðugleikinn er ekki meiri en svo að í stjórnartíð þessara þriggja flokka, þessi sex og hálft ár sem þau eru svo stolt af að hafa haldið samstarfið út, höfum við haft tvo forsætisráðherra, þrjá fjármálaráðherra, fjóra utanríkisráðherra og fimm dómsmálaráðherra. Auðvitað er það brandari, virðulegi forseti, að hér hafi ríkt efnahagslegur og pólitískur stöðugleiki í tíð þessara ríkisstjórna.

Forseti. Fátt er svo með öllu illt að það boði ekki eitthvað gott. Það er gott að til stendur að klára samgöngusáttmálann og þar með fjármögnun á borgarlínu þó að óttast megi að unnin verði skemmdarverk á þeim áætlunum Vinstri grænna eins og öðrum grænum loforðum þess flokks. Þá er gott að enn stendur til að fjármagna og leiða í lög breytingar á örorkulífeyriskerfinu sem lengi hefur verið beðið eftir. Og loks er gott að Sjálfstæðisflokkurinn er farinn úr fjármálaráðuneytinu. Flokkur sem stýrist af úreltum thatcherisma og nýfrjálshyggjukreddum sem löngu hafa verið afsannaðar á ekki heima í fjármálaráðuneytinu og því er vel að það mikilvæga embætti færist til annars flokks. Þar með gefst Framsóknarflokknum tækifæri til að efna þau fjölmörgu kosningaloforð sem hrúgast hafa í sarpinn á öllum þessum árum eins og hvalrekaskattur, bankaskattur, þjóðarhöll, farsældarlög, listamannalaun o.s.frv., og getur ekki lengur falið sig á bak við það að loforðin stoppi bara í fjármálaráðuneyti Sjálfstæðisflokksins.

Nýsleginn forsætisráðherra, virðulegi forseti, var ægilega hneykslaður á því að við í stjórnarandstöðunni vildum ræða um traust fólks í landinu gagnvart honum frekar en málefnin. Því ber að svara að auðvitað skiptir traust á stjórnvöldum gríðarlega miklu máli gagnvart því hvort stjórnvöld nái árangri. Það hlýtur hverjum forsætisráðherra með sómakennd að vera hjartans mál að hann njóti trausts í embætti. En framtakssemin, hún þrífst best í pólitískum stöðugleika, sagði forsætisráðherrann rétt í þessu. Það er einmitt málið, virðulegi forseti. Framtakssemin er engin á meðan ríkisstjórnin tekur hring eftir hring í umræðum við sjálfa sig um hvort hún vilji vera ríkisstjórn. Einhvern daginn lýkur þessu raunveruleikasjónvarpi, virðulegi forseti, í síðasta lagi 30. september á næsta ári en þó vonandi eins og einu ári fyrr því að það skiptir svo sannarlega máli, virðulegi forseti, hver stjórnar.