154. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2024.

Yfirlýsing forsætisráðherra og umræður um hana.

[17:25]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Undanfarin ár hefur tröllvaxin verkefni drifið á daga þessarar ríkisstjórnar. Þó að við viljum flest gleyma heimsfaraldri er ljóst að eftirmálar hans eru enn þá áþreifanlegir í ríkisrekstrinum. Ófriður í heiminum hefur einnig sett strik í reikninginn og íslensk náttúra er jafn ófyrirsjáanleg og hún er fjölbreytt. Á sama tíma hafa stjórnvöld náð miklum árangri fyrir íslenskt samfélag. Fyrir íslensku samfélagi liggja þó enn þá stórar áskoranir. Land rís enn á Reykjanesinu, ofanflóðahætta er reglulega á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum. Verðbólgan er viðvarandi og vextir háir. Þá hefði það ekki þjónað hagsmunum almennings að þeir flokkar sem við stjórnartaumana halda hefðu skilið hér eftir hálfkláruð verkefni. Það er ábyrgðarhluti þeirra flokka sem halda utan um meiri hluta hér á Alþingi að halda samstarfinu áfram og róa hér eftir sem hingað til öll í sömu átt.

Áframhaldið snýst um að ná árangri fyrir fólkið í landinu og áþreifanleg eru auðvitað verkefnin sem snúa að stöðunni í efnahagsmálum. Aðkoma ríkisstjórnarinnar við gerð kjarasamninga var lykilatriði til að koma á langtímasamningum og friði á vinnumarkaði. Nýr fjármálaráðherra mun á næstu dögum kynna fjármálaáætlun til fjögurra ára. Fólk finnur á eigin skinni hver áhrif verðbólgu eru á heimilisbókhaldið og verða ríkisfjármálin að dansa í takt við peningastefnuna svo að verðbólgan haldi áfram að hjaðna. Þetta verkefni er og verður í fyrsta forgangi.

Stundum er nauðsynlegt að staldra við og stilla áttavitann til að tryggja að þau verkefni sem ríkisstjórnin hefur ákveðið og mun ákveða að ráðist verði í hafi jákvæð áhrif á íbúa þessa lands, að ekki verði þvælt inn óskilgreindum verkefnum sem eru aðeins til þess fallin að trufla skýra stefnu ríkisstjórnarinnar. Hér þarf að nýta tímann vel og forgangsraða þeim verkefnum fremst sem snúa með beinum hætti að fólkinu í þessu landi. Stilla þarf af verkefnin þannig að hér viljum við sterka vörn, vörn fyrir þau lífsgæði sem tekist hefur að byggja upp undanfarin ár og á sama tíma förum við af krafti í sókn á þeim sviðum sem til þess eru fallin að auka verðmætasköpunina og bæta lífskjör allra landsmanna.

Nefnd eru orkumálin sem ein af helstu áskorunum fram undan og er ég fyllilega sammála því að sá málaflokkur er einn sá allra mikilvægasti til að tryggja að hér verði auðlindir okkar áfram nýttar til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag. Lánist okkur ekki að tryggja hér rafmagn til þeirra verkefna sem byggja undir áframhaldandi lífskjarasókn lít ég svo á að fram undan sé hætta á að kyrrstaðan leiði til skertra lífsgæða framtíðarkynslóða. Því er það mikið kappsmál að árangri verði náð í þessum málaflokki. Auðvitað er það ekki svo að við getum hér á Alþingi reist með handafli eina virkjun sem mun leysa allan vanda. En þess þá heldur er verkefnið skýrt. Það snýr að því að einfalda allt ferlið, allt frá því að virkjunarkostur kemur fyrst á borðið og að því að íbúar þessa lands setji klóna á hleðslutækinu í tengilinn á veggnum og rafmagnið byrjar að flæða. Verkefnið er þetta; að þeir virkjunarkostir sem við höfum nú þegar ákveðið að nýta verði virkjaðir, að uppbygging á nú þegar fulllestuðu flutningskerfi stoppi ekki ítrekað í óskilvirku stjórnsýsluferli, að hér verði virkur og gagnsær markaður um raforkuna. Þetta getum við gert með skýrri forgangsröðun verkefna.

Þessari ríkisstjórn hefur lukkast vel að skjóta styrkum fótum undir fjölbreyttari stoðir atvinnulífsins. Hugvitið er í sókn og stöðugum vexti og það er ekki tilviljun. Með áherslu stjórnarinnar á nýsköpun og með uppstokkun á kerfinu hefur hugvitið tekið stökk í útflutningstekjum. Með öðrum orðum: Kakan hefur stækkað. Vegna þeirra hröðu tæknibreytinga sem fram undan eru þurfa stjórnvöld áfram að horfa til þeirra tæknilausna sem berast á færibandi frá einkaaðilum hérlendis sem hafa það að markmiði að bæta þjónustu við borgarana, einfalda stjórnsýslu og mæta áskorunum framtíðarinnar.

Forseti. Það er ekki síst verkefni að segja frá því sem vel er gert því að nóg er af úrtölumönnum sem vilja finna hér öllum verkefnum stjórnvalda allt til foráttu. Árangur íslensks samfélags á undanförnum áratugum er öfundsverður á alþjóðavísu og talar auðvitað sínu máli. Lykilatriðið hér er að þeim árangri sem náðst hefur til framfara í okkar góða samfélagi verði ekki glutrað niður. Til að spila áfram góðan leik þurfum við öflugan sóknarleik og engum treysti ég betur á vellinum en ríkisstjórn með forystu formanns Sjálfstæðisflokksins.