154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

kaup Landsbanka á TM.

[10:44]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegur forseti. Bankaráð Landsbankans hefur gert bindandi samning án nokkurra fyrirvara um að kaupa TM tryggingar af Kviku banka. Um þetta er margt að segja og sumt af því fór ég yfir í grein sem var í birtingu á Vísi yfir páskahelgina þannig að hér verður aðeins stiklað á mjög stóru. Þessum kaupum þarf að rifta og fyrir því má færa mörg rök. Fyrst má nefna að þarna er bankaráð Landsbankans að nota 28,8 milljarða af almannafé til að rétta við rekstur Kviku banka. Bankastjóri Landsbankans hefur haldið því fram að ákvörðun um þessi kaup hafi verið tekin með hagsmuni Landsbankans, ríkisins og almennings í huga en það blasir við að svo er ekki. Þeir einu sem hagnast á þessum kaupum eru hluthafar Kviku banka. TM er keypt á yfirverði sem er allt að 8 milljörðum fyrir ofan næsta boð og 3 milljörðum yfir skrásettu virði þess í bókum Kviku banka. Einnig er alvarlegt að enginn fjármálaráðherra þessarar ríkisstjórnar kannast við eitt né neitt. Fyrri fjármálaráðherra vildi bíða eftir skýrslu Bankasýslunnar, sýslu sem í fyrsta lagi átti ekki að vera til og hefur í öðru lagi sannað að hún sé ekki fær um að sýsla með eitt né neitt.

Nú er spurning hvað fyrrverandi fjármálaráðherra, nú orðinn forsætisráðherra, gerir. Hafi bankaráð Landsbankans virkilega haft trú á því að um algjör snilldarviðskipti væri að ræða hefði ekki átt að vefjast fyrir þeim að láta handhafa 98% hlutafjár vita af kaupunum sem, ofan á allt annað, ganga þvert gegn eigandastefnu ríkisins sem er á fullu við að selja banka en ekki eignast tryggingafélög. Þetta er ekki yfirsjón heldur einbeittur brotavilji.

Kvika banki, sem sendi frá sér afkomuviðvörun í janúar upp á rúmar 800 milljónir, hefur ekki gefið út jákvæða afkomutilkynningu þrátt fyrir að hagnast um 3 milljarða á þessum viðskiptum. Þetta getur gefið til kynna að eignir Kviku banka hafi verið ofmetnar. Ég vil því beina því til nýs forsætisráðherra að hann sjái til þess að kaupunum verði rift án tafar þrátt fyrir yfirlýsingu fráfarandi fjármálaráðherra um annað og fela Fjármálaeftirlitinu að gera úttekt á Kviku banka. Eða getur það verið að forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins muni láta það líðast að einkabanka sé veittur ríkisstyrkur og þannig bjargað með almannafé á hans vakt?