154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

umferðarlög.

923. mál
[13:32]
Horfa

innviðaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og þakka fyrir árnaðaróskir. Eins og kemur fram í fyrirspurn hv. þingmanns þá er þetta hinn gullni meðalvegur eins og alltaf. En það sem hér er verið að leggja til lýtur að umferðaröryggi og að tryggja það að ferðamátar séu öruggir og þar með opnist í raun og veru raunverulegt val um mismunandi ferðamáta. Þegar við stöndum frammi fyrir raunverulegum tölum, eins og hér hefur komið fram, til að mynda komur á bráðamóttöku og heilbrigðisstofnanir vegna slysa á þessum smáfarartækjum, þá ber okkur að horfa til þess að það er þarna á ferð áþreifanleg hætta fyrir líf og heilsu. Það er slysahætta og ekki síst fyrir börn og ungmenni. Löggjafinn hefur áður glímt við sambærileg viðfangsefni, hvort sem það er fyrir létt bifhjól, reiðhjól eða annað slíkt, og nú er komið að því að þetta, sem er orðinn partur af sem betur fer sífellt fjölbreyttari flóru farartækja og fjölbreyttari ferðamáta, stendur dálítið fyrir utan það sem löggjafinn hefur tekið afstöðu til og er kominn tími til að mínu mati.

Ég tek undir það sem hv. þingmaður veltir hér upp. Ég held að það sé áskorun fyrir nefndina að takast á við þetta og ég hvet eindregið til þess að nefndin komist að niðurstöðu um þessi mál vegna þess að það eru börn og ungmenni, fullorðið fólk sem hefur beinlínis orðið fyrir alvarlegu tjóni vegna þess að við höfum ekki klárað þetta regluverk.