154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

sjúkraskrár.

906. mál
[17:59]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Þetta er kannski ekki beinlínis andsvar sem ég er að koma með en hv. þingmaður vakti upp þörf mína fyrir að taka undir það sem hún er að segja varðandi aðgengi. Aðgengi í dag snýst ekki lengur eingöngu um það að komast leiðar sinnar í hinum líkamlega heimi heldur um aðgengi að öllum þeim tækjum og þeirri þjónustu og því sem er í rauninni orðið almennt í okkar samfélagi. Staðan er nefnilega orðin þannig að stafrænar lausnir eru ekki lengur viðbótarúrræði eða lúxus heldur sú aðferð sem við notum til að sækja okkur upplýsingar, sækja okkur þjónustu og í rauninni lifa lífinu og lifa í samfélaginu. Þetta finnst mér svo mikilvægur punktur í umræðunni um öll aðgengismál og allar úrbætur sem við reynum að gera á aðgengismálum. Þegar talað er um, eins og oft er gert, að tiltekin lausn nái til 95% fólks eða 98% jafnvel eða eitthvað slíkt, og það er sannarlega eitthvað sem hljómar rétt og vel, en við þurfum að hafa í huga að það eru gjarnan sömu 2–5 prósentin sem falla þarna fyrir utan. Við þurfum að hafa það í huga. Með það í huga og það að oft erum við að tala um atriði sem hreinlega má telja til mannréttinda, sem krefjast jafnvel dýrs tækjabúnaðar til þess að hafa aðgang að nýjasta hugbúnaði og annað, þá þurfum við að fara að gera þá kröfu að aðgengið sé 100% en ekki 98%.