154. löggjafarþing — 95. fundur,  15. apr. 2024.

breyting á búvörulögum.

[15:10]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég sakna þess að heyra viðbrögð forseta þingsins við því sem fram hefur komið með opinberum hætti í fjölmiðlum, að þetta frumvarp hafi í reynd farið út úr húsi Alþingis, út úr húsi Alþingis Íslendinga, þar sem hagsmunaaðilar voru að skrifa lög klæðskerasniðin að þeim sjálfum. Í bréfi matvælaráðuneytisins hingað til Alþingis kemur fram að markmiðið með frumvarpinu eins og það var kynnt fyrir Alþingi var að verja hagsmuni bænda og hagsmuni neytenda sem gátu gengið hönd í hönd í þessu máli. Niðurstaðan var sú að ráðuneytið spyr þingið hvort því sé alvara með því að hafa kastað hagsmunum bænda algerlega út af borðinu og hagsmunum neytenda í leiðinni. Eitthvað gerðist þarna í skjóli nætur, einhver slík vinnubrögð að þau þoldu ekki dagsins ljós og það er ástæða til að minna á það að Kaupfélag Skagfirðinga á ekki að fara með löggjafarvald á Alþingi.