Störf þingsins.
Virðulegur forseti. Það var stór stund hjá vinum okkar og kollegum í Færeyjum í síðustu viku þegar þeir hýstu þing Norðurlandaráðs í fyrsta skipti. Færeyingum fórst það vel úr hendi eins og von var. Þema ráðstefnunnar okkar í Færeyjum í síðustu viku var öryggi, varnarmál og viðbragð í Norður-Atlantshafi, sem er í fullum takti við formennskuáætlun okkar Íslendinga í Norðurlandaráði. Gestafyrirlesari okkar var Louise Dedichen, varaaðmíráll og fastafulltrúi Noregs í hernaðarnefnd NATO. Hún fór m.a. yfir það að norrænu ríkin hefðu sofið á verðinum eftir lok kalda stríðsins og afvopnast of mikið. Hún nefndi einnig að tilraunir til að koma á auknu samstarfi á síðustu árum, t.d. í innkaupum á búnaði, hefðu gengið misvel en nú þyrftu löndin að herða sig og byggja upp hergagnaiðnað og nýta þau tækifæri sem NATO-aðild allra ríkjanna veitir.
Norrænt samstarf skiptir okkur Íslendinga miklu máli og hefur gert í gegnum tíðina en á tímum sem þessum sem við horfum upp á í heiminum er ekki síður mikilvægt að norrænt samstarf eigi sér líka stað kringum varnarmál og samfélagsöryggismál og viðbúnaðarmál. Það er því tækifæri til þess að gera Norðurlandaráð að eins konar vettvangi fyrir samtal norrænna þingmanna um mikilvægi öryggis- og varnarmála. Á þinginu í Færeyjum skilaði jafnframt tillögu starfshópur sem þingmaður okkar, Hanna Katrín Friðriksson, hefur farið fyrir um endurskoðun á Helsingfors-sáttmálanum. Það verður krefjandi verkefni fyrir okkur Íslendinga að reyna að ná sátt um breytingar á þeim sáttmála en þar er ákall og krafa vina okkar í Færeyjum og á Grænlandi hátt og skýrt: Þeir vilja fulla aðild að Norðurlandaráði.