154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[14:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að spyrja einmitt um þetta því að það hefði kannski mátt bæta því við andsvar mitt í fyrri ræðu að það er ekki eingöngu verið minnka áhættuna heldur er það nú þannig að þeir fjármunir sem eru bundnir í ríkisfyrirtækjum nýtast þá ekki í eitthvað annað, til að mynda að lækka skuldir ríkissjóðs eða til þess að taka þátt í öðrum arðsömum verkefnum til að byggja upp, augljóslega ekki til reksturs heldur til þess að færa eignarhluta úr einu formi í annað. Ég nefndi í morgun að það væri mikilvægt að geta selt Íslandsbanka til að geta staðið við það að lækka skuldir eins og til stendur. Við stefnum á að lækka skuldir ríkissjóðs, skuldahlutfall, um allt að 1,3% á fjármálaáætlunartímabilinu. Sala á Íslandsbanka mun að sjálfsögðu nýtast til þess en það er ekki útilokað að það sé líka skynsamlegt að nýta einhverja hluta af fjármununum til uppbyggingar á öðrum eignum ríkisins sem eru arðsamar og er skynsamlegt að fara í.