ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.
Virðulegur forseti. Það voru margar staðhæfingar ekki réttar hjá hv. þingmanni en ég hef bara ekki tíma til að leiðrétta þær allar. Það er augljóst að hér er ekki verið að kasta til höndunum. Hér liggur fyrir annars vegar, eins og ég kom inn á, stjórnarsáttmálaákvörðun, ferli sem er búið að ganga alla vega, ég vil taka undir hv. þingmanni með það, og hluti af þeim lærdómi sem við tökum með okkur í það er að það sé skynsamlegra að fara aðra leið, þ.e. þá leið sem hér er lögð til; leita til þingsins með skýrum hætti, fá leiðsögn og ákvörðun af hálfu þingsins um hvernig standa skuli að þessari sölu og geta síðan framkvæmt hana á grunni þess. Ég held að það megi segja að hér sé ekki verið að kasta til höndunum vegna þess að það sé einhver sérstakur skortur á fjármagni. Hins vegar getum við, við það að setja upp söluna og hugsanlegan ávinning af henni (Forseti hringir.) í fjármálaáætlun, sýnt fram á skynsamlega fjármálaáætlun og góðan árangur á fjármálaáætlunartímanum án þess að taka nokkrar dýfur í íslensku efnahagslífi.