154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[14:46]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Forseti. Svo það sé sagt er ég sammála mikilvægi þess að þessi sala geti farið fram. En trúverðugleikinn skiptir auðvitað máli í því samhengi. Tíðindin af blaðamannafundi þáverandi fjármálaráðherra, hæstv. núverandi forsætisráðherra, í október síðastliðnum þegar hann axlaði ábyrgð á lögbrotum við síðustu bankasölu Íslandsbanka, voru auðvitað í reynd aldrei afsögn heldur bara spurning um hvaða ráðherrastóll biði hans. Og eftir sólarhringsauðmýkt Sjálfstæðismanna birtust þeir í fjölmiðlum hver af öðrum og nefndu að eðlilegast væri kannski bara að Bjarni Benediktsson yrði forsætisráðherra. Þingheimur brosti og þjóðin brosti. Hálfu ári síðar er Bjarni Benediktsson orðinn forsætisráðherra. Fjármálaráðherra á hans vakt stendur nú hér og talar um það að það sé kannski bara best að ríkisstjórnin, rúin trausti um bankasölu, selji bankann sjálf. Þær reglur sem voru brotnar við síðustu bankasölu hafa verið felldar úr gildi. Engar reglur lengur um armslengd því þær virkuðu kannski ekki svo vel, engar reglur um sérstakt hæfi því þær virkuðu kannski ekki svo vel. (Forseti hringir.) Ríkari aðkoma Alþingis var sögð nauðsynleg við þessa sölu. Niðurstaðan er: Ríkari aðkoma ráðherranna sjálfra. Er þetta trúverðugt?