154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[14:49]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Varaformaður Framsóknarflokksins sagði eftir síðustu sölu á hlut í Íslandsbanka, með leyfi: „Miðað við aðstæður og umræðuna nú tel ég að hægja verði á einkavæðingunni.“ Eins og hér hefur líka verið spurt og komið fram þá liggur nú fyrir að umboðsmaður mat fyrrum fjármálaráðherra vanhæfan í síðustu bankasölu og hann vék. Sami fyrrum fjármálaráðherra er nú í forystu nýrrar ríkisstjórnar án endurnýjaðs umboðs. Og í millitíðinni blandaðist ríkið inn í kaup á tryggingafyrirtæki án síns vilja að því er virðist, kaup sem óvissa ríkir um og þar með talið áhrifin á hag ríkisins. Leikandi í þeirri aðgerð var, eins og hér hefur komið fram, Bankasýslan sem átti að vera búið að leggja niður. Þannig að varla hefur umræðan eða aðstæður batnað, hvað þá traustið gagnvart ríkisstjórninni í þessum málaflokki síðan varaformaðurinn lét þessi orð falla.

Ég vil því spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Telur hann að ríkisstjórnin hafi traust til að halda einkavæðingunni áfram eftir allt sem á undan er gengið? Væri ekki nær að anda (Forseti hringir.) í kviðinn, endurnýja umboðið og vinna til baka traustið áður en vaðið er áfram með frekari sölu?