154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[15:59]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þegar verið var að undirbúa og framkvæma að ráðast í sölu á Íslandsbanka, í frumútboði og svo í annað skiptið, þá var það lögbundið ferli. Fjármála- og efnahagsráðherra kæmi með greinargerð inn til þingsins og tvær nefndir áttu að veita umsögn um það; efnahags- og viðskiptanefnd og fjárlaganefnd. Hér er um að ræða frumvarp frá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem að mati yfirstjórnar þingsins fer til umfjöllunar í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Ég hef í sjálfu sér ekkert við það að athuga að fleiri nefndir komi að málum fyrir mitt leyti, er svo sem ekki heldur mitt að meta á þessum tímapunkti. Ef ég man rétt þá er í þingsköpum heimild til að kalla eftir umsögnum, nefnd getur kallað eftir umsögnum annarra nefnda, þannig að það eru leiðir til staðar, veit ég, í því, og það er sjálfsagt að það samtal eigi sér stað meðal þingmanna og eftir atvikum í öðrum nefndum.

Hv. þingmaður kom aðeins inn á eignir ríkisins, hvaða eignir það á og hversu vel það fer með eigur sínar. Ég get að mörgu leyti tekið undir þetta sjónarmið. Ég kom inn á það í ræðu minni að ég er almennt þeirrar skoðunar að ríkið sé ekki góður eigandi, m.a. út af þeim sjónarmiðum sem hann reifaði, að hafa yfirsýn yfir það hvaða eignir hafa þýðingu og hvaða máli þær skipta. Ríkið á um 900 fasteignir og það á 400 jarðir, metnar kannski á yfir 300 milljarða. Hvert er ástand þessara fasteigna? Hvernig má það vera að svo hátt hlutfall opinberra bygginga liggi núna undir skemmdum (Forseti hringir.) og viðhaldi sé ekki sinnt? Þetta eru allt atriði sem er góðra gjalda vert að ræða.