154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[16:06]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það þarf að velta við öllum steinum varðandi síðustu sölu á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka, sögðu stjórnarþingmenn, og ekki fyrr en það hefði verið gert yrði ráðist í frekari sölu. En, forseti, það er ekki búið að velta við öllum steinum, a.m.k. er athugun Fjármálaeftirlitsins ekki lokið og stjórnarandstaðan hefur kallað eftir rannsóknarnefnd, sem ekki hefur verið orðið við, einmitt til þess að velta við öllum steinum. Okkur var öllum ljóst að stjórnarsamstarfið var undir þegar stjórnarliðar tjáðu sig um bankasöluna síðustu og ábyrgð fjármálaráðherrans þáverandi á henni. Ef þau hefðu viðurkennt ábyrgð hæstv. ráðherrans þá hefði verið gerð krafa um að hann segði af sér. Stjórnarliðar gengu þess vegna langt í því að réttlæta gjörðir fjármálaráðherrans sem fór rúinn trausti úr fjármálaráðuneytinu í forsætisráðuneytið með viðkomu í utanríkisráðuneytinu.

Fyrst þóttust þau í stjórnarliðinu hólpin, að hafa haldreipi í einhverju sem þau kölluðu armslengd, að fjármálaráðherra hefði ekki mátt skipta sér af framkvæmdinni. Svo föttuðu þau, a.m.k. flest þeirra, að það átti ekki við. Þá sögðu þau að stjórnsýslan hefði ekki verið nógu góð en minntust ekkert á ábyrgð ráðherrans í þeim efnum. Umgjörðin var ekki nógu góð, sögðu sum, ekki nógu skýr og áttu við lögin sem gilda um söluna nr. 155/2012. En lögin eru ekki flókin og þar er ekkert svigrúm til að senda ábyrgðina eitthvert annað, í burtu frá fjármálaráðherranum.

Að selja banka er ekki líkt og að selja prívateign, sagði þáverandi forsætisráðherra, og lýsti áhyggjum af rýrnandi trausti eftir bankasöluna. Lausnin væri að leggja Bankasýsluna niður og setja alla framkvæmd til fjármálaráðherrans. Sennilega hélt hún að það væri til þess fallið að auka traustið en ég efast um að margir séu sammála henni í þeim efnum.

Lögin um söluna áttu að skapa trausta umgjörð ef ákveðið yrði að selja hluti ríkisins í fjármálafyrirtækjunum. Leiðarstef laganna eru gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni. Draga átti lærdóm af bankahruninu. Með því frumvarpi sem við ræðum hér er ekki einungis lagt til að lögin um Bankasýsluna verði felld úr gildi heldur einnig lögin um sölumeðferðina. Eftir er skilið tómarúm sem hæstv. núverandi fjármálaráðherra getur nýtt sér að vild, en hann talaði reyndar um traust og trúverðugleika í ræðunni áðan.

Í 1. gr. laga nr. 155/2012, um bankasöluna, er tilgreint hvað ráðherra er heimilt að selja af eignarhlutum í bönkunum. Þegar lögin voru samþykkt áttum við 5% í Íslandsbanka, 13% í Arion banka og 81% í Landsbanka. Þá stóð til að halda eftir í eigu ríkisins 70% af Landsbanka en selja 5% og 13% í hinum bönkunum. Það var svo á árinu 2015 sem allt breyttist og ríkið sat með nánast allt bankakerfið í fanginu og umræða hófst um sölu á stærri hlutum. En lögin um söluna eru þau sömu, sem nú á að fella brott áður en næsta sölutörn hefst á hlutum í Íslandsbanka.

2. gr. laganna fjallar um ákvörðun um söluferlið. Bankasýslan á að gera tillögu um sölumeðferðina og þegar ráðherra hefur fallist á tillöguna leggur hann greinargerð um hana fyrir fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Ráðherra leitar einnig umsagnar Seðlabankans, m.a. um gjaldeyrisforða og laust fé í umferð. Í greinargerð ráðherrans eiga að koma fram upplýsingar um helstu markmið með sölu eignarhlutarins, hvaða söluaðferð verði beitt og hvernig sölumeðferð verði háttað. Þegar umsagnir hafa borist ráðherra tekur hann ákvörðun um hvort sölumeðferð verði hafin í samræmi við efni greinargerðarinnar eða hvort hann gerir breytingar á fyrirhugaðri sölumeðferð eftir að hafa tekið tillit til umsagna.

Ráðherra hefur heimildir samkvæmt lagagreininni til að gera breytingar á tillögu Bankasýslunnar. Honum er ætlað, samkvæmt þessum lögum, virkt hlutverk í ákvarðanatöku um sölumeðferðina. Skýrsla Ríkisendurskoðunar um söluna var áfellisdómur yfir bæði Bankasýslunni en ekki síður fjármála- og efnahagsráðherra, líkt og stendur á bls. 26 í skýrslu Ríkisendurskoðunar, með leyfi forseta:

„[Þ]ótt ekki sé gert ráð fyrir aðkomu ráðherra að framkvæmd sölunnar ber hann engu að síður ábyrgð á því að söluferlið sé í samræmi við þær forsendur og þau skilyrði sem lögð voru til grundvallar í greinargerð hans. Honum ber því að hafa eftirlit með söluferlinu og ganga úr skugga um að það hafi verið í samræmi við greinargerðina áður en hann tekur ákvörðun um sölu.“

Fjallað er um meginreglur við sölumeðferð í 3. gr. laganna. Áherslan er á opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni. Skilyrðin sem sett eru eiga að vera sanngjörn og tilboðsgjafar eiga að njóta jafnræðis. Þá skal við söluna kappkosta að efla virka og eðlilega samkeppni á fjármálamarkaði.

Í frumvarpi um söluna segir um 3. gr., með leyfi forseta:

„Þannig er mikilvægt varðandi sölu eignarhluta ríkisins að jafnræðis sé gætt milli þeirra sem koma til greina sem mögulegir kaupendur svo að allir líklegir kaupendur hafi jafna möguleika á því að gera tilboð. Jafnræði verður best tryggt með því að skilyrði við sölu séu fá, skýr og öllum ljós.“

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar voru gerðar ítarlegar og alvarlegar athugasemdir um að söluferlið hafi ekki verið opið, það hafi ekki verið gagnsætt og lagt hafi verið huglægt mat á gögn og hagstæðustu tilboðunum ekki tekið.

Um sölumeðferðina er fjallað í 4. gr. laganna þar sem farið er yfir hvað Bankasýslunni er ætlað að gera, þ.e. undirbúa söluna, leita tilboða, meta tilboð, hafa umsjón með samningaviðræðum við utanaðkomandi ráðgjafa og væntanlega kaupendur og annast samningagerð.

Seinni málsgrein greinarinnar er svona, með leyfi forseta:

„Þegar tilboð í eignarhlut liggja fyrir skal Bankasýsla ríkisins skila ráðherra rökstuddu mati á þeim. Ráðherra tekur ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eða þeim hafnað og undirritar samninga fyrir hönd ríkisins um sölu eignarhlutarins.“

Nýr hæstv. fjármálaráðherra vill ekki þurfa að fara eftir lögunum og leggur til að þau verði felld brott og hæfisreglum vikið til hliðar. Ég fullyrði að það er ekki til þess fallið að auka traust og trúverðugleika.

En hvers vegna, forseti, vill ríkisstjórnin einkavæða bankana? Hvers vegna liggur svona á að selja hluti ríkisins í bönkunum? Vegna þess að það er svo mikil áhætta fyrir ríkið að eiga banka, segja sumir. En það er ekki hægt að blekkja þjóð sem hefur þurft að bera mikinn kostnað af því að einkareknir bankar settu samfélagið á hausinn með slíkum fullyrðingum. Almenningur mun alltaf bera kostnaðinn ef illa fer fyrir kerfislega mikilvægum fjármálafyrirtækjum.

Önnur ástæða sem mikið er tekin fyrir sölu á eignarhlut ríkisins í bönkunum er sú að samkeppnin eflist á einhvern hátt við það að selja bankana. Vísað er til aukinnar samkeppni jafnvel þó að það sé alveg skýrt að það að hluti eignarhalds á öðrum bankanum í eigu ríkisins fari til einkaaðila breytir engu um samkeppnina á milli stóru bankanna þriggja. Þrír stórir bankar sem allir eru kerfislega mikilvægir eru takmarkandi fyrir samkeppni á markaði og geta stuðlað að fákeppni óháð því hvort einn eða tveir bankar séu í eigu einkaaðila. Ef vilji er til að skapa rými fyrir fjölbreyttari og meiri samkeppni milli markaðsaðila þarf að huga að heildarskipulagi kerfisins og gera verulegar breytingar. Í umsögn Samkeppniseftirlitsins vegna áforma um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka þegar hún fór síðast fram var einmitt rætt um þetta. Samkeppniseftirlitið benti á að við undirbúning ákvörðunar um svo veigamikla sölu á eignarhlut ríkisins sé mikilvægt að samkeppnisleg áhrif sölunnar séu metin í þaula og að virk samkeppni ásamt með góðu regluverki geti stutt við fjármálastöðugleika. Ekkert var fjallað þá um samkeppnismál í greinargerð fjármála- og efnahagsráðherra um söluna. Samkeppniseftirlitið benti á að íslenskur fjármálamarkaður beri sterk fákeppniseinkenni. Lántakendur hafi úr fáum kostum að velja og bankarnir þrír í lykilstöðu að því er varðar þróun atvinnustarfsemi í landinu.

Forseti. Til að auka samkeppni og fjölbreytni á fjármálamarkaði þarf að huga að framtíðarskipulagi. Í hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið er lögð áhersla á að bankakerfið þurfi að byggjast á þremur grundvallarþáttum, um gott regluverk og öflugt eftirlit með fjármálafyrirtækjum, hagkvæmum rekstri bankanna og traustu eignarhaldi allra mikilvægra eigna á fjármálamarkaði. Hins vegar skortir á að athugasemdir við hvítbókina og almennar umræður um hana hafi leitt til sameiginlegrar sýnar í samfélaginu um hvernig fjármálakerfi þurfi að byggjast upp. Til að skapa traustan grundvöll fyrir framtíð og stefnumörkun í þessum málefnum þarf umræðu. Bankar eru ekki eins og hver önnur fyrirtæki, þeir hafa áhrif út um allt samfélagið og til að móta framtíðarskipulag bankakerfisins þarf almenna umræðu sem upplagt er að taka í aðdraganda kosninga sem við þurfum, ef að líkum lætur, ekki að bíða lengi eftir. Þannig getur framtíðarskipulag bankakerfisins verið eitt af þeim kosningamálum sem kjósendur taka afstöðu til í kjörklefanum. Og jafnvel þó að sagt sé að ákvörðunin um að selja banka byggi á hvítbók um fjármálakerfið er ekki farið eftir þeim aðalatriðum sem þar koma fram, t.d. að huga þurfi heildstætt að framtíðareignarhaldi bankanna og ef Íslandsbanki yrði seldur þá ætti það að vera til erlends aðila með reynslu af bankarekstri.

Ég hef talað fyrir því, forseti, að við hefðum átt að nýta þá stöðu betur þegar við sátum uppi með nánast allt bankakerfið í fangi ríkisins til að ákveða hvernig bankakerfi við vildum sjá til framtíðar; með góðri þjónustu við fólk og fyrirtæki með fjölbreytni og fleiri kostum ásamt samkeppni, öflugu eftirliti og neytendavernd með öruggri og ódýrri innlendri greiðslumiðlun. Greiðslumiðlunarkerfi eru grunninnviðir í hverju landi. Því þarf að svara að hve miklu leyti eigi að heimila einkaaðilum eða erlendum stórfyrirtækjum að sjá um þessa grunninnviði samfélagsins og nýta þá til hagnaðar í eigin þágu frekar en almennings. Tækniframfarir eru á fleygiferð og ágóðinn af þeim þarf að falla almenningi í skaut en ekki bara eigendum bankanna. Grænar áskoranir blasa við og grænar fjárfestingar verða samfélaginu enn mikilvægari.

Ég er þeirrar skoðunar að við ættum að aðskilja fjárfestingarbankastarfsemi frá viðskiptabankastarfsemi. Fjárfestingarbankastarfsemi verði ekki fjármögnuð með sparnaði almennings. Áhættan í fjárfestingarbankastarfsemi yrði áhyggjuefni eigenda fjárfestingarbankans en ekki ríkisins. Þar liggur mikilvægur lærdómur bankahrunsins. Viðskiptabankastarfsemi, eins konar samfélagsbanki eða þjóðarbanki, verði hins vegar fjármögnuð með innlánum með Seðlabankann sem bakhjarl. Slíkri uppskiptingu fylgir aukin fjölbreytni á fjármálamarkaði og samkeppni sem skortir nú. En fyrst og fremst ætti að fara fram umræða í samfélaginu um framtíð bankakerfisins þar sem vilji almennings í þeim efnum yrði dreginn fram. Síðan má taka til við að selja eignarhluti þegar framtíðarskipulag og æskilegt eignarhald hefur verið ákveðið.

Forseti. Við getum haft alls konar skoðanir á því hvernig við viljum sjá bankakerfið þróast og við getum haft hugsjónir og sumir segja jafnvel að það sem ég hef farið yfir hér sé ekki raunhæft. Allt í lagi með það. En við vitum af reynslunni að þessari ríkisstjórn er ekki treystandi til að selja banka. Ég treysti ekki þessari ríkisstjórn til að selja banka jafnvel þó að annar ágætismaður sé kominn í fjármálaráðuneytið. Í þessu frumvarpi sem við erum að skoða núna, sem á auðvitað eftir að fara í gegnum þinglega meðferð, eru engin ákvæði um málsmeðferð og ákvarðanatöku ráðherrans sjálfs og það skilur eftir tómarúm sem býður hættunni heim.