154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[16:26]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. Það hefur verið gjörsamlega ótrúlegt að fylgjast með því hvernig hæstv. ríkisstjórn umgengst eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum núna á þessu kjörtímabili. Það hefur dregið úr trausti og trúverðugleika og það hefur beinlínis valdið skaða. Við skulum rifja það upp að þegar farið var af stað í seinni fasann á sölu Íslandsbanka árið 2022 þá var því haldið fram fyrir nefndum Alþingis og gagnvart almenningi í landinu að jafnræðis, gagnsæis og hlutlægni yrði gætt, að leitað yrði hæsta verðs, að ráðherra yrði sjálfur upplýstur að fullu leyti um hverja sölu til að geta tekið afstöðu til hvers tilboðs. Þannig var það orðað. Þetta yrði allt saman eins og hlutirnir væru praktíseraðir í löndunum í kringum okkur o.s.frv. Þannig átti þetta allt að vera gert faglega og vel og samkvæmt laganna hljóðan.

Hvað gerist svo? Jú, núna tveimur árum síðar liggja fyrir álit og úttektir frá þremur eftirlitsaðilum um að lögum og reglum hafi ekki verið fylgt í ferlinu. Við erum að tala um álit og úttektir frá Ríkisendurskoðun, frá fjármálaeftirlitsnefnd Seðlabankans og frá umboðsmanni Alþingis. Undirbúningur og framkvæmd var í ólagi, sagði Ríkisendurskoðun, markmið á reiki, upplýsingagjöf fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Bankasýslunnar til Alþingis ekki til þess fallin að draga upp skýra mynd, tilhlýðilegar kröfur ekki gerðar til umsjónaraðila, söluráðgjafa og söluaðila, ekki gætt nægilega að meginreglum um gagnsæi og hlutlægni, fullt jafnræði fjárfesta ekki tryggt o.s.frv. Eftirspurn eftir bréfunum vanmetin vegna takmarkaðrar greiningar á tilboðabókinni. Vanmat Bankasýslunnar á eftirspurn eftir bréfunum kann jafnvel að hafa haft áhrif á niðurstöðuna, sagði Ríkisendurskoðun, og skaðað hagsmuni ríkissjóðs. Þetta sagði þessi eftirlitsaðili löggjafans, Alþingis, Ríkisendurskoðun.

Þetta var og er alvarlegur áfellisdómur yfir stjórnvöldum og yfir fyrrverandi ráðherra sem bar ábyrgð á sölunni. Næst kom fjármálaeftirlitsnefnd Seðlabanka Íslands og tætti í sig vinnubrögð bankans sjálfs, Íslandsbanka. Alvarleg og kerfislæg brot, sagði Fjármálaeftirlitið. Bankinn villti um fyrir Bankasýslunni. Það var ákveðið degi fyrir útboðið að starfsmenn mættu kaupa hlut í bankanum og ekki voru gerðar viðeigandi ráðstafanir til að hindra hagsmunaárekstra og fleira og fleira. Bankinn fékk hæstu sekt í sögunni. Þetta var niðurstaða Fjármálaeftirlitsins í þessum anga Íslandsbankamálsins.

Og svo loks umboðsmaður Alþingis sem rannsakaði það sem stjórnarmeirihlutinn á Alþingi vildi alls ekki að yrði rannsakað og beitti sér gegn á öllum stigum að yrði rannsakað, sem er stjórnsýsla ráðherra sjálfs, fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra, og m.a. hæfi hæstv. ráðherra vegna þátttöku föður hans í útboðinu. Þetta var eitthvað sem mátti helst ekki tala um, þótti dónalegt að minnast á hér á Alþingi. Hver var niðurstaða umboðsmanns Alþingis? Jú, niðurstaðan var sú að hæstv. ráðherra hefði heykst á því að gæta að sérstöku hæfi sínu við söluna á Íslandsbanka. Honum brast hæfi vegna aðkomu eignarhaldsfélags föður hans og stjórnsýsla ráðherra var ekki í nægilegu samræmi við stjórnunar- og eftirlitsskyldur ráðherra gagnvart Bankasýslu ríkisins.

Stjórnarliðar hér á Alþingi höfðu aftur og aftur gefið í skyn að fjármála- og efnahagsráðherra væri svo gott sem ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum vegna armslengdarreglu og Bankasýsla ríkisins yrði bara að vera á einhverri sjálfstýringu, ráðherra mætti helst ekkert snerta hana. Umboðsmaður Alþingis tætti í sig þennan málflutning í áliti sínu um Íslandsbankasöluna og benti á að ráðherra ber þvert á móti skylda til þess að fylgjast með og tryggja að starfræksla Bankasýslu ríkisins sé í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti. Hæstv. fyrrverandi ráðherra klikkaði á þessu. Hann vanrækti þetta stjórnunar- og eftirlitshlutverk sitt í veigamiklu máli er varðar almannahagsmuni og skaðaði þannig traust þegar kemur að ráðstöfun stjórnvalda á sameiginlegum eignum Íslendinga. Hann sagði af sér, þó það nú væri.

Það var kominn nýr ráðherra og þegar við héldum að þessum farsa í kringum eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum væri að ljúka þá byrjaði bara enn einn farsinn, enn eitt dæmið um stjórnleysi og samskiptaleysi þegar kemur að umsýslu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum sem birtist í þessu blessaða TM-máli, sem varðar kaup Landsbankans á tryggingafélagi. Þar virðist hæstv. fyrrverandi ráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, hafa verið eindregið þeirrar skoðunar að kaupin gengju gegn eigendastefnu ríkisins og tjáði sig opinberlega í febrúar um þessi mögulegu kaup sem þá höfðu verið fluttar fréttir af. Bankasýslan hafði verið látin vita af þessum möguleika en engu að síður greip ráðherra ekki til neinna ráðstafana samkvæmt þeim heimildum sem hún hefur samkvæmt lögum fyrr en eftir að Landsbankinn hafði lagt fram bindandi kauptilboð og eftir að kauptilboðið hafði svo verið samþykkt þann 18. mars.

Hér í þingsal hafa stjórnarliðar réttlætt þetta út frá armslengdarreglu þrátt fyrir umfjöllun umboðsmanns Alþingis sem í raun hrekur þær hugmyndir. En svo kom reyndar í ljós, eftir að stjórnarliðar töluðu hér á þeim nótum, að ráðherra hafði þvert á öll þessi armslengdarsjónarmið fundað sjálf með bankastjóranum um þetta tiltekna mál frekar en að fara hina lögformlegu leið sem er mjög skýr í lögum um Bankasýslu ríkisins, mig minnir að þetta sé í 3. mgr. 2. gr., um að ráðherra hafi heimild til að beina sérstökum tilmælum til stofnunarinnar í undantekningartilvikum. Þessi atburðarás í kringum kaup Landsbankans á TM og málflutningur Sjálfstæðismanna í kjölfarið bendir ekki til að þau hafi dregið nokkurn einasta lærdóm af Íslandsbankamálinu.

Nú er kominn enn einn fjármálaráðherrann, hæstv. ráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson. Hvar hefur hann staðsett sig í öllum þessum vandræðamálum? Ja, í Íslandsbankamálinu var hæstv. ráðherra í klappliði Bjarna Benediktssonar, vildi jú hengja söluráðgjafana og kannski Bankasýsluna en horfði algerlega fram hjá því að það er ráðherra sem ber ábyrgð á því að tryggja að lögum sé fylgt við sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Samkvæmt lögum á ráðherra, sem fer með yfirstjórnunar- og eftirlitsskyldur og fer með þessa ábyrgð, að tryggja að farið sé að lögum þegar eignarhlutir ríkisins í fjármálafyrirtækjum eru seldir. Það hefur heyrst minna frá hæstv. ráðherra þegar kemur að þessu TM-máli. Hann ætlar, að því er virðist, að taka sér einhverja daga eða vikur til að velta þeim hlutum fyrir sér. Gott og vel.

Hér flytur hæstv. ráðherra, þriðji fjármálaráðherrann á sex mánuðum, frumvarp sem fyrirrennari hans lagði fram um sölu á Íslandsbanka, á eftirstandandi hlut ríkisins í Íslandsbanka. Mér finnst margt í þessu frumvarpi vekja upp spurningar. Hér er gert ráð fyrir mjög mikilli aðkomu einkaaðila að sölunni sjálfri án þess að settar séu skýrar reglur um val á þessum aðilum og á samningum við þá. Það virðist hins vegar vera að það sé stefnt að því að tryggja þeim söluþóknun sem ætti að vera, út frá söluandvirði sem er reiknað með, eitthvað í kringum 700–800 milljónir, söluþóknun til þeirra sem koma að því að selja þennan banka. Þetta vekur auðvitað upp spurningar. Það eru engin ákvæði í lögunum um málsmeðferð og ákvarðanatöku ráðherra sjálfs eða þau eru einkar óljós nema kannski bara þetta; ráðherra þarf ekki að gæta að sérstöku hæfi sínu sem er auðvitað það sem ráðherra flaskaði á að gera í Íslandsbankamálinu.

Í greinargerð frumvarpsins segir:

„Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Ráðuneytið naut í þeirri vinnu liðsinnis fjármálaráðgjafa og lögfræðilegra ráðgjafa.“

Það væri nú fróðlegt að vita hvort þetta séu sömu ráðgjafarnir og hvöttu stjórnvöld áfram í öðrum fasa útboðsins þar sem gengið var fram í trássi við lög og reglur eins og þrír eftirlitsaðilar hafa nú staðfest. Maður veltir fyrir sér hvers vegna minnisblöð eða úttektir þessara ráðgjafa eru ekki birtar samhliða frumvarpinu sem fylgiskjöl aftast í greinargerð eins og hefur oft tíðkast. Ég reikna með að efnahags- og viðskiptanefnd kalli eftir þessum upplýsingum.

Það sem kannski truflar mig sérstaklega hér er atriði sem fer ekkert mikið fyrir í frumvarpinu, er ekkert verið að blása sérstaklega upp í greinargerð eða í kynningunni á því en er samt algjört grundvallaratriði. Í 6. gr. frumvarpsins kemur fram að við gildistöku þessara laga þá falla úr gildi lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, nr. 155/2012. Það er sem sagt verið að fella brott með einu pennastriki lagarammann sem hefur gilt núna í 12 ár um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum án þess að það komi nein almenn lög um þessi atriði í staðinn þannig að eftir stendur lagalegt tómarúm. Ríkisstjórn sem hefur sniðgengið lög og reglur við sölu á hlutabréfum ríkisins í fjármálafyrirtæki vill fá enn þá frjálsari hendur núna til þess að haga sölunni eftir því sem ráðherra hugnast. Hvers vegna í ósköpunum ætti þingheimur að treysta þeim eftir allt sem á undan er gengið? Nú hafa þau meira að segja heimild í fjárlögum til að ráðast í sölu á Landsbankanum. Með þessu frumvarpi hér þá verður ríkisstjórninni í raun gert kleift að ráðast í slíka sölu í svona hálfgerðu lagalegu tómarúmi, fyrir utan bara þær lágmarksreglur sem má leiða af stjórnsýsluréttinum og lögum um opinber fjármál. Þetta skýtur skökku við.

Maður veltir fyrir sér: Er þetta í alvörunni niðurstaðan eftir allan vandræðaganginn með eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum á þessu kjörtímabili, að nú skuli ríkisstjórn Íslands fá nær alveg frítt spil við einkavæðingu fjármálafyrirtækja? Við eigum bara einhvern veginn að treysta þeim? Þetta kallar hæstv. fjármálaráðherra að nálgast hlutina á varfærnislegan og yfirvegaðan hátt, að afnema bara, fella úr gildi með einu pennastriki þann lagaramma sem hefur gilt um þessi mál í 12 ár. Hvaða brandari er þetta eiginlega, virðulegi forseti? Ætlar Alþingi í alvörunni að gefa hæstv. ríkisstjórn þetta vald? Ég trúi því ekki fyrr en ég sé það.