154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

Störf þingsins.

[10:35]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Það er misjöfn sýn fólks á þá vantrauststillögu sem lögð var fram hér í gær. Ég er ánægður með það að við skyldum leggja hana fram vegna þess að hún upplýsti okkur um það hver stefna þessarar ríkisstjórnar er. Það hefur komið skýrt fram að endurskoðun almannatrygginga gagnvart öryrkjum átti að taka gildi 1. janúar en það er búið að fresta því til 1. september 2025. Þannig sparar ríkið sér 10 milljarða kr. Hæstv. fjármálaráðherra nýr var að hæla sér í gær af því að það væri búið að gera frábæra kjarasamninga en í andsvörum við mig þá vildi hann ekki svara því hvort það stæði til að þær rúmar 20.000 kr. sem var samið um þar myndu skila sér til lífeyrisþega í almannatryggingakerfinu. Ég hef einnig spurt hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra um þetta og það eru sömu svörin, það er ekki einu sinni verið að ræða það. Þeir ætla bara að borga um næstu áramót og þá á að reikna þetta niður eins og þeir hafa alltaf gert með brellum þannig að þetta verði í mesta lagi helmingurinn og kjaragliðnunin verður stærri og stærri. Hæstv. fjármálaráðherra hælir sér af lífeyriskerfinu, það hafi aldrei aðrar eins lífeyrisgreiðslur komið til aldraðra. Auðvitað hælir hann sér af því vegna þess að 8 af hverjum 10 kr. skila sér beint í ríkissjóð úr lífeyrissjóðum eftir skatta og skerðingar. Auðvitað er ríkisstjórnin ánægð með það. En hverju skilar þetta til þeirra sem virkilega þurfa á að halda? 2 kr. Á sama tíma eru þeir sem ríkisstjórninni eru hugleiknir og eru þeirra aðalfólk, fjármagnseigendur, að borga bara 22% Þeir borga ekki einu sinni útsvar. Hugsið ykkur, þeir borga ekki einu sinni útsvar, en á sama tíma er verið að skerða um 45% lífeyrissjóðinn og skerða líka 45% ávöxtun eldri borgara og öryrkja ef þeir fara eitthvað rétt yfir frítekjumörk. Fyrir hvern er þessi ríkisstjórn að vinna? Það fer ekki á milli mála.