154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[12:10]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Áfram á slóðum samgöngusáttmálans: Með hvaða hætti eru samtöl að eiga sér stað núna varðandi aðkomu ríkissjóðs að rekstri sérstaklega borgarlínu sem er partur af samgöngusáttmálanum? Maður heyrir nefnt frá fulltrúum sveitarstjórnarstigsins reglulega að það séu samtöl í gangi og það væri áhugavert fyrir okkur að vita með hvaða hætti það stendur.

Mig langar sömuleiðis til að ítreka hvort það sé ekki örugglega réttur skilningur að í 1,7% tölunni hvað heildargjöld af akstri og ökutækjum varðar þá sé virðisaukaskattur undanskilinn, hann sem sagt leggist bara ofan á undirliggjandi útgjöld hvers og eins. Síðan svona almenns eðlis, ef ráðherra vinnst tími til. Bæði hef ég heyrt ráðherrann segja í viðtölum eftir að hann tók við nýju embætti og mér heyrðist hann koma stuttlega inn á það í ræðunni hér áðan að kaupmáttur hafi aukist hér á landi í gegnum heimsfaraldurinn. Telur ráðherrann að það hafi verið innstæða fyrir þeirri kaupmáttaraukningu eða er möguleiki að partur af þeim erfiða slag sem við stöndum í gagnvart verðbólgu núna sé vegna þess að það var til einföldunar prentað of mikið af peningum sem orsökuðu þessa mældu kaupmáttaraukningu án þess að innstæða væri fyrir og við séum að bíta úr nálinni með það núna?