154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[12:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Áfram um samgöngusáttmálann og það samtal sem við eigum við sveitarfélögin. Eins og hv. þingmaður þekkir er samgöngusáttmálinn fyrst og fremst umgjörð um uppbyggingu á stofnkerfunum og hinum fjölbreyttu leiðum; borgarlínu, hlaupa-, hjóla- og göngustígum, en það hafa líka verið í gangi viðræður um aðkomu ríkisins að rekstri almenningssamgangna. Það samtal hefur gengið með hléum og er enn þá í gangi. Það tengist auðvitað líka mikilvægi þess að komast í orkuskipti og þeim stuðningi sem hugsanlega væri til í kerfunum okkar til að styðja við þau orkuskipti, sem munu skipta miklu máli í að ná annars vegar fram loftslagsmarkmiðum okkar og líka bara til að ná því heilnæma lofti og umhverfi sem er eitt af markmiðum samgöngusáttmálans. Ég held að það megi bara segja að það samtal sé áfram í gangi en niðurstaða liggi ekki nákvæmlega fyrir í dag.

Varðandi það sem hv. þingmaður kom inn á með kaupmáttinn og hvort við séum hugsanlega að glíma við verðbólgu vegna þess að þær aðstæður hafi skapast að það hafi orðið meiri kaupmáttur heldur en framleiðnin og framleiðslan hafi staðið undir þá held ég að það megi segja að hv. þingmaður hafi nokkuð til síns máls hvað það varðar í einstökum þáttum. Við höfum séð kaupmáttinn stoppa á einhverjum ákveðnum tímabilum og síðan voru gerðir hérna skammtímakjarasamningar sem sennilega voru nokkuð umfram það sem framleiðnin stóð undir. Kannski þess vegna m.a. hefur verðbólgan verið heldur hærri en ella. En þetta er líka auðvitað þetta heildarumhverfi (Forseti hringir.) í hagkerfi heimsins, annars vegar eftir heimsfaraldurinn (Forseti hringir.) og síðan stríð í Evrópu og reyndar um allan heim sem veldur talsverðri þenslu og breytingum á heimsmarkaði.