154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[13:56]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held nú að hæstv. fjármálaráðherra þurfi aðeins að fara betur yfir grundvallarhugtök í ríkisfjármálunum með sínu fólki í ráðuneytinu. Að koma hingað upp og láta eins og það að afla aukinna tekna sé ekki aðhald, séu ekki aðhaldsráðstafanir …(Fjmrh.: … dæla peningunum út jafnharðan.) Nei, en hæstv. ráðherra, hvar var Framsókn þegar t.d. Samfylkingin lagði til hóflega hvalrekaskatta, hærri auðlindagjöld hér við síðustu fjárlög og jafnvel þarsíðustu líka? Það stóð ekki til að dæla því öllu beint út í hagkerfið. Nei, þetta er til þess að auka aðhald í ríkisfjármálum og það er bæði hægt að gera á útgjaldahlið og tekjuhlið. Þannig virka nú bara hlutirnir. Hér er talað um hófsaman útgjaldavöxt. Hann er nú raunar svo hófsamur að útgjöld dragast verulega saman sem hlutfall af vergri landsframleiðslu á áætlunartímanum. Hvað með frumtekjurnar? Þær dragast líka saman. Það er alveg sama hversu marga alheimsskatta hæstv. fjármálaráðherra telur upp, það stendur ekki til að reka ríkissjóð með ábyrgari hætti en raun ber vitni. Það birtist í þessari fjármálaáætlun og þess vegna er halli á níu ára tímabili og m.a. mjög mikill halli þegar þenslan er hvað mest. Fyrir vikið hrynja auðvitað tekjur inn í ríkissjóð, þó það nú væri þegar þenslan er jafn mikil og raun ber vitni, en það kallar líka á harðara aðhaldsstig því þannig er það. Því meiri sem þenslan er, því meira þarf aðhaldið að vera til að það bíti eitthvað á verðbólguna og þensluna. Þetta eru grundvallaratriði.