154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[12:41]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir sína framsögu. Í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu er margt undir, m.a. hringrásarhagkerfið. Á síðasta kjörtímabili var hringrásarhagkerfið sérstakt áherslumál þáverandi hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra eins og það hét þá. Hringrásarhagkerfi er hagkerfi þar sem vörur, hlutir og efni halda verðmæti sínu og notagildi eins lengi og mögulegt er. Það er vissulega rétt að neyslumenning samtímans og hið línulega hagkerfi auka hagvöxt í heiminum en ýtir jafnframt undir framleiðslu á vörum sem endast skemur sem veldur meiri ásókn í auðlindir. Við höfum gengið um of á gæðin. Ásókn í auðlindir er nærri tvöfalt meiri en mögulegt er að standa undir með sjálfbærum hætti og afleiðingarnar eru m.a. hnignun lífríkis og neikvæð loftslagsáhrif, en vernd og endurheimt lífríkisins og aðgerðir gegn loftslagsáhrifum eru einnig á málefnasviði hæstv. ráðherra.

Hringrásarhagkerfið eykur hagsæld, fjölgar störfum og eykur lífsgæði. Með því að styðja við það er hægt að stuðla að sjálfbærni, standa vörð um takmarkaðar auðlindir jarðar og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Að auki sýna fjölmargar rannsóknir að hringrásarhagkerfinu fylgja jákvæð áhrif á efnahagslífið, aukin landsframleiðsla og meiri samkeppnishæfni hagkerfisins. Þannig má búast við að ný störf skapist í tengslum við viðgerðarþjónustu, endurvinnslu og aðra meðhöndlun úrgangs, nýsköpun, með hugviti og hönnun, allt með eflingu hringrásarhagkerfisins. Þá er líklegt að fleiri störf verði til en hverfi samkvæmt greiningu sem gerð var á vinnumarkaðsáhrifum þess að Evrópa skipti úr línulegu hagkerfi yfir í hringrásarhagkerfi.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sjái fyrir sér að hið opinbera ætti með markvissum aðgerðum, til að mynda í formi ívilnana, að hvetja til þess að neytendur nýti sér viðgerðarþjónustu í auknum mæli í anda hringrásarhagkerfisins.