154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[12:46]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir hans ræðu. Varðandi svarið, svo ég nefni eitthvað sem er í gangi, það er auðvitað margt í gangi, þá erum við núna búin að tryggja fjármagn í svokallaðan Hringrásarklasa. Það er, tel ég, örugglega mjög góð leið til að ýta undir hringrásarhagkerfið svo ég nefni bara einn þátt. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur að við séum ekki að reyna að finna upp hjólið. Sjávarklasinn hefur reynst mjög vel hjá okkur í rauninni þó að við höfum ekki kallað það hringrás, Sjávarklasinn er ekki kallaður hringrásarklasi, en hann er samt sem áður að gera nákvæmlega það. Það skiptir svo miklu máli að við fáum alla aðila sem koma að málum, hvort sem það eru viðgerðaaðilar eða þeir sem eru framleiðendur. Við erum auðvitað að breyta náttúrlega gríðarlega miklu í Úrvinnslusjóði sem við þyrftum að ræða sérstaklega og ég vona að umhverfis- og samgöngunefnd fái kynningu á því, sem miðar allt að því að efla hringrásarhagkerfið. En þetta er ekki tæmandi, enda hef ég bara eina mínútu, við ræðum þetta seinna og meira.