154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[12:48]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Fjármálaáætlun fyrir árin 2025–2029 gerir ráð fyrir stuðningi við orkuskipti fyrir samtals 31 milljarð kr. Á sama tíma eru stjórnvöld með markmið um að bæta við um 70.000 rafbílum í bílaflotann sem krefst 63 milljarða kr. styrks, en frá ríkinu er gert ráð fyrir 900 þús. kr. styrk fyrir hvern bíl. Til viðbótar gaf ráðuneyti umhverfis-, orku- og loftslagsmála nýlega út Vegvísi að vetnis- og rafeldsneytisvæðingu á Íslandi þar sem lesa má að orkuskiptin til 2030, utan rafbílavæðingar og nýrrar raforkuvinnslu, muni kosta 114–162 milljarða kr. og ekki ólíklegt að um þriðjungur þess þurfi að koma frá ríkinu í formi styrkja eða 38–52 milljarðar. Samanlagt bendir allt til þess að ríkið þurfi að leggja fram yfir 100 milljarða til að ná eigin markmiðum í orkuskiptum en fjármálaáætlun hljóðar upp á 31 milljarð.

Hæstv. ráðherra. leggur mikla áherslu á orkuskipti í ræðu og riti en mér sýnist að þau orð séu án mikillar innstæðu. Hefur ríkisstjórnin gefist upp á eigin markmiðum er varða orkuskipti? Telur ráðherra að þeir fjármunir sem liggja fyrir núna nægi til að ná markmiðum orkuskipta fyrir árið 2030 eins og að er stefnt? Og er ráðherra sammála mér um að orkuskiptamarkmið ríkisstjórnarinnar séu vanfjármögnuð?