154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[13:07]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég verð að segja að ég er ekki á móti raforkuframleiðslu í neinni einustu mynd. Ég fagna því að það sé fólk sé með sólarsellur á húsinu og fjölskylda mín hefur það á Vestfjörðum. Ég fagna því að allir geti selt inn á raforkukerfið en það hefur ekkert með það að gera að við séum ekki tengd raforkukerfi Evrópu. Það er það sem málið snýst um. Við erum eyja úti í Norður-Atlantshafi og við eigum að taka mið af því að öllu leyti. Staðsetning okkar er nokkuð sem Brussel hefur ekki enn þá uppgötvað þegar það semur reglur um raforkuviðskipti yfir landamæri, það er nokkuð ljóst, og krefst þess að við innleiðum þær.

Það sem ég var að spyrja um varðandi markmiðið um kolefnishlutlaust Íslands er: Hver er staðan á vinnunni við það að fá þessar skilgreiningar? Og hver er staðan á því að geta metið landnotkun sem kolefnisbindingartæki? Hvernig eigum við að geta náð þessu markmiði ef við höfum ekki mælitækin á hreinu varðandi gæði gagna o.s.frv.? Mér finnst þetta svolítið óljóst markmiðið þegar við erum að horfa til þess hver staðan er; við vitum ekki hversu mikið birkiskógurinn tekur til sín og (Forseti hringir.) hversu mikið votlendið tekur til sín.

Að lokum langar mig að spyrja að því hvort hann geti aðeins (Forseti hringir.) komið að Vestfjörðum í lokin: Er ekki kominn tími til að forgangsraða Vestfjörðum (Forseti hringir.) varðandi orkuöflun þar sem næststærsta orkuver Vestfjarða er dísilorkuver? (Forseti hringir.) Og það verði þá líka haft í forgangi varðandi hringtengingu við Vestfirði.