154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[13:41]
Horfa

matvælaráðherra (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil bara þakka hv. þingmanni fyrir þessa brýningu. Það er alltaf af hinu góða þegar við setjum af stað rannsóknir og eitthvað sem eflir arfgerðir og annað slíkt í landbúnaðinum. Þetta er eitt af því sem ég á einmitt eftir að skoða í mínu ráðuneyti. Ég er að byrja að fara yfir með skrifstofunum hin ýmsu mál og forgangsmál sem undir eru á þessu vorþingi, þar sem þarf að bregðast hratt við.

Varðandi afkomu bænda: Já, við þekkjum það sannarlega að hún hefur því miður ekki verið nægjanlega góð. Það skipti auðvitað máli þegar stjórnvöld gripu inn í í desember fyrir þennan hóp. Það eru auðvitað eins og við þekkjum miklar fjárfestingar, ekki síst vegna aukinna krafna af hálfu Alþingis þar sem settar hafa verið íþyngjandi reglur, ef hægt er að orða það með þeim hætti. En alla vega eru gerðar meiri kröfur. Við þurfum að fylgjast vel með. Sem betur fer er verðbólgan á niðurleið og aðstæður eru að batna í samfélaginu. En það breytir því ekki að þetta er þung staða og ég kem til með að fylgjast með því, eins og ég veit að ríkisstjórnin öll mun gera. Ég tek undir það með hv. þingmanni að matvælaöryggi og fæðuöryggi þjóðarinnar er gríðarlega mikilvægt og til þess að það sé til staðar með þeim hætti sem það þarf að vera þurfum við að tryggja að hér sé búskapur í landinu og með þeim hætti að nægur sé til að framfleyta þjóðinni ef á þarf að halda.