154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[13:58]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar að minna hæstv. ráðherra á spurninguna um öflun fjármagnsins, þ.e. veiðigjaldið, og spurninguna um áhrif loftslagsbreytinga á hafið. Ég ætla einfaldlega að vera með stutta og einfalda spurningu í seinni helmingnum. Í fjármálaáætlun er talað um að verið sé að leggja fjármagn í að styrkja stjórnsýslu og eftirlit með fiskeldi. Mig langar að spyrja hvort eitthvert fjármagn verði sett í rannsóknir á áhrifum sjókvíaeldis á umhverfið, áhrifum á laxastofna, áhrifum á lífríki jarðar o.s.frv. þar sem það stendur ekki í áætluninni að efla eigi rannsóknir tengdar fiskeldi heldur rannsóknir í hafinu.