154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[14:26]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra hafi heyrt spurningu mína. Ég eyddi megninu af mínum tíma rétt áðan í að spyrja um það hversu langan tíma ráðherrann ætlaði að nota til að sýna þennan litla vilja sinn sem hún hefur til þess að tryggja 48 daga til strandveiðimanna. Hvenær er svars að vænta við því hvort hún ætli að tryggja strandveiðisjómönnum 48 daga eða ekki? Hvenær megum við vænta svars? Ég spurði um tímasetningu. Verður það í haust, fyrir jól, verður það um mánaðamótin, verður það í þessum mánuði, verður það í apríl, maí, júní eða júlí? Það er spurningin. Hvenær ætlar hún að svara strandveiðimönnum því hvort hún ætli að gera ekki neitt, sem lítur út fyrir að verði, eða hvort hún ætli að gera eitthvað. Það er spurningin. Það liggur við að mig langi til að fá hingað sérfræðinga ráðuneytisins til óundirbúinna svara, það þurfi að spyrja þá. Að stjórnmálamaður sé með sýn á málið — það virðist ekki vera í þessu tilviki hjá hæstv. matvælaráðherra. Hver er vilji hennar? Jú, hann er að spyrja sérfræðingana í ráðuneytinu. Fyrrverandi matvælaráðherra setti reglugerð sem bannaði hvalveiðar. (Forseti hringir.) Það var brot á lögum og það var brot á atvinnufrelsi hvalveiðimanna. Þessi núverandi matvælaráðherra (Forseti hringir.) treystir sér ekki einu sinni til að setja reglugerð sem eykur frelsi, eykur atvinnufrelsi sem er algjörlega tryggt í stjórnarskránni.

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill enn og aftur áminna hv. þingmenn um að virða ræðutímann.)