154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[14:33]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég vil bara benda á að það eftirlit sem á sér stað, það verður að sinna því og vera raunverulegt. En nú langar mig að benda á annað og ræða um þá staðreynd að risastór hluti þeirrar losunar sem verður hér á landi verður til vegna niðurbrots lífræns efnis á svæðum sem áður voru votlendi. Áratugum saman voru gríðarlegir hvatar til þess að ræsa fram votlendi og ríkið styrkti sérstaklega þau verkefni án þess að tilgangurinn væri einu sinni ljós eða þörf fyrir svæðin. Afleiðingarnar af því eru að lífrænt efni brotnar niður og berst út í andrúmsloftið. Þess vegna er ég að velta því fyrir mér, ég sá þetta ekki ávarpað í málaflokknum í þessari fjármálaáætlun, hvort ekki standi til í ráðuneytinu að vinna í þeim málum líka hvað varðar Land og skóg, ekki síst í ljósi þess hversu gríðarlega mikil tækifæri myndu felast í því til að draga úr losun.