154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[14:58]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir umræðuna og framsöguna áðan. Það sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra lýtur að fjölmiðlum. Það kom fram í máli hennar áðan að ríkið ætli að setja tæpa 40 milljarða á næstu árum, á tímabili fjármálaáætlunarinnar frá 2025–2029, í það verkefni. Í fjármálaáætluninni kemur fram að áherslurnar verði m.a. sjálfstætt ríkisútvarp sem nýtur trausts og stuðningur við einkarekna fjölmiðla. Það kemur reyndar líka fram að hækka eigi framlag um 1.600 milljónir frá fjárlögum 2024 til ársins 2029. Nú hafa miklar tæknibreytingar orðið í samfélaginu sem lúta að fjölmiðlum. Við erum komin með netið og það er auðveldara að koma á framfæri bæði mynd og hljóði og því sem maður vill segja í samfélaginu. En á sama tíma og það er að gerast, að þröskuldurinn er að lækka til að lýsa skoðunum sínum í gegnum internetið og á samfélagsmiðlum, þá er ríkið að fara að styrkja fjölmiðla, einkarekna fjölmiðla. Mér finnst það skjóta mjög skökku við í ljósi tjáningarfrelsis. Við erum þá með ákveðna fjölmiðla sem eru styrktir af ríkinu. Er það framtíðarmúsík að einkareknir fjölmiðlar í landinu verði til framtíðar ríkisstyrktir? Mér finnst það ekki gott mál ef við lítum á óhæði og frelsi. Ég spyr hvort þetta sé ekki röng vegferð sem erum að fara í þegar við horfum til þess að ríkið sé að setja fjármuni, skattpeninga borgaranna, í einkarekna fjölmiðla þegar það er auðveldara að búa til efni. Ég get ekki séð annað en að þetta haldi beinlínis aftur af efnilegum fjölmiðlamönnum sem njóta ekki ríkisstyrkja, þeir fá ekki njóta sín og njóta ávaxta hæfileika sinna og vinnu heldur eru þeir að fara að keppa við ríkisstyrkta einkafjölmiðla.