154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[15:04]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil benda hv. þingmanni á það að við erum að gera nákvæmlega sama og öll hin Norðurlöndin, kannski fyrir utan Finnland. Öll hin Norðurlöndin eru með ríkismiðil sem þau styðja. Öll hin Norðurlöndin eru að styðja við einkarekna fjölmiðla með nákvæmlega sama fyrirkomulagi og við erum að gera. Þetta er ekki eitthvað sem við erum að finna upp hér. Ástæðan fyrir því að vera að gera þetta er sú að það er talið efla lýðræðislega umræðu í samfélaginu. Ég tel að fjölmiðlar, hvort sem það eru fjölmiðlar hér í upphafi síðustu aldar eða með öðru sniði í fornöld, séu bara mikilvægir, þeir veita aðhald.