154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[15:08]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr í hvað hið nýja varanlega fé sé að fara, eins og ég skil spurninguna. (BLG: …ekki fara, þau hverfa. Lækkunin.) Lækkunin er til að mynda vegna Covid-framlaga sem fóru, eins og hefur verið nefnt hér, inn í Kvikmyndasjóð. Það sem við ráðgerum að gera á móti og er í ferli og frumvarp er tilbúið sem ég mun leggja fram á haustþingi er varðandi menningarframlag sem streymisveitur eiga að koma með, til þess að setja inn í Kvikmyndasjóð til að koma til móts við nákvæmlega það sem hv. þingmaður var að nefna. Annað eru tímabundin framlög. Það er misjafnt, ég fer kannski ekki að tíunda það hér nákvæmlega, við getum tekið það inni í fjárlaganefnd. En það sem við erum auðvitað líka að horfa á er að hér er að koma inn tæpur hálfur milljarður sem á að fara í starfslaun listamanna og í nýja þjóðaróperu og á líka að koma til móts við eitthvað af þessum framlögum sem eru að falla niður. Það sem ég horfi hins vegar á er að það er verið að nýta hverja einustu krónu gríðarlega vel á málefnasviði 18. Í fyrsta sinn er verið að taka utan um hverja einustu listgrein eða iðnað, búa til heildarstefnu sem nær utan um allar aðgerðir sem eiga að uppfylla þetta meginmarkmið um að Ísland verði miðstöð skapandi greina. Ég held að við sjáum það vegna þess að það er svo öflugt fólk sem er í skapandi greinum að þessi stefnumótun er að skila sér margfalt inn í hinar skapandi greinar.