154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[15:15]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að nefna það sérstaklega að nú sé búið að setja á laggirnar sérstakt menningarmálaráðuneyti sem hefur náð að einblína sérstaklega á skapandi greinar. Ég tel að það sé afar gott vegna þess að við erum þjóð sem setur einna mest til þessara greina. Við verjum sem nemur tæpum 2% af landsframleiðslu í skapandi greinar. Einnig þakka ég hv. þingmanni fyrir að minnast á þjóðaróperu sem er að mínu mati löngu tímabært að setja á laggirnar. Hún er að taka við af Íslensku óperunni en verður innan veggja Þjóðleikhússins til að byrja með. Hugmyndin er að það sé ein öflug sviðslistastofnun þar sem við höfum Þjóðleikhús, þjóðaróperu og mögulega Íslenska dansflokkinn. Öll þessi listform eiga að geta nýtt sér stoðdeildir og kynningarmál og annað slíkt en við einblínum á fjölgun listamanna. Til að mynda verða hjá nýrri þjóðaróperu ráðnir inn 12 söngvarar sem ekki hefur verið gert í mjög langan tíma sem geta þá nýtt sér þessar grunnstoðir Þjóðleikhússins. Ég mun fara yfir fjárveitingarnar í næsta svari.