154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[15:21]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Það gleður mig auðvitað að heyra þennan samhljóm sem við höfum varðandi ritstýrða fjölmiðla. Það er gríðarlega mikilvægt að við gerum greinarmun á staðreyndum annars vegar og skoðunum hins vegar þegar við erum að fjalla um fjölmiðla, og það er talsverður munur. Stundum getur þetta auðvitað farið saman en mér finnst mjög mikilvægt að hér sé fjölbreytt flóra fjölmiðla þar sem eru ritstjórnir. Það er hins vegar svo að þeim hefur fækkað og það er eitt af því sem ég hef haft einna mestar áhyggjur af sem ráðherra hvað varðar þá málaflokka sem ég hef borið ábyrgð á á síðustu árum. Og þetta er viðfangsefni sem er flókið út af þessari hnattvæðingu fjölmiðla og auglýsingatekna.

Hv. þingmaður spurði út í hvernig ég sjái auglýsingamarkaðinn fyrir mér og hvernig hægt sé að tryggja að það að veita aukið súrefni inn til einkarekinna fjölmiðla skili sér, hvort hægt sé að tryggja það. Nei, það er ekki hægt að tryggja það. Ein af ástæðum þess að ég hvarf frá minni fyrri skoðun um að ágætt væri að hafa Ríkisútvarpið á auglýsingamarkaði er einfaldlega sú staðreynd að þau ríki sem hafa tekið sína miðla af þeim markaði hafa lent í því að bróðurparturinn af auglýsingatekjum fer á umrædda miðla. Af hverju? Vegna þess að það eru bara svo margir á þessum miðlum og auglýsandinn er auðvitað þar. Það breytir því hins vegar ekki að það er ekkert ólíklegt að við séum í ákveðnu tímabundnu umhverfi og ef við komum ekki inn með ákveðnar aðgerðir eins og við höfum verið að gera, með því að styðja við einkarekna fjölmiðla og horfa með (Forseti hringir.) gagnrýnum augum á …

(Forseti (OH): Klukkan er úr lagi gengin.)

— Já, afsakið, frú forseti. Við verðum einhvern veginn að vinna með þessa stöðu og ég kem betur að því hér á eftir.

(Forseti (OH): Forseti bendir á að klukkan í ræðustólnum er úr lagi gengin og biður hv. þingmenn og hæstv. ráðherra að treysta forseta til að láta vita hvenær tíminn er liðinn.)