154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:17]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Það er gott að heyra það hjá hæstv. ráðherra að verið sé að kanna markaðsbresti hjá minni byggðarlögum þar sem fyrirtækin sjálf treysta sér ekki til að leggja ljósleiðara. Það er gríðarlega mikilvægt að lagðir verði ljósleiðarar alls staðar á landinu, líka þar sem markaðsbrestir eru og vonandi að sú vinna skili sér sem allra fyrst.

Varðandi tæknisjóðina þá tel ég mikilvægt að gætt verði hagsmuna landsbyggðarinnar og það verði í skilmálum sjóðanna að þeim verði gert að setja ákveðið hlutfall fjár til nýsköpunar á landsbyggðinni. Kannski ætti ráðherrann að svara því hvort svo sé ekki.

Aðalspurningin sem mig langar að ræða varðar stöðu háskólastigsins. Það hafa komið gæðakannanir sem hafa sýnt að háskólar á Íslandi eða tveir stærstu háskólarnir séu að skrapa botninn, eins og sagði í ákveðinni frétt og ég held að ráðherrann hafi sjálfur notað það hugtak — hún getur leiðrétt mig ef það er ekki rétt, en að þeir séu staddir mjög illa. Það kemur fram í kaflanum um háskólastigið að á tímabilinu sem um ræðir í fjármálaáætlun sé markmiðið að auka gæði og samkeppnishæfni háskólastarfs og að árið 2025 eigi að auka framlag til reksturs háskóla um 1.400 milljónir.

Vissulega er módelið þarna komið og fjármögnunin er árangurstengd, en spurning mín lýtur að því hvort það sé nægilegt að auka bara fjármagnið, hvort stjórnvöld þurfi ekki líka að gera kröfu til háskólanna, t.d. varðandi ráðningar á prófessorum, að við séum ekki með svokallað „inbreeding“, að mikilvægt sé að það komi utanaðkomandi aðilar að ráðningum og gerðar verði gæðakröfur til háskólanna sem eru kannski ekki fjárhagslegs eðlis, sem kosta ekki mikið, að við sjáum til þess að peningum skattborgaranna sé vel varið í háskólunum og að eftirlit sé með því hvernig þeim er varið þegar kemur að gæðum og það tryggi að við förum upp listann í þessum gæðakönnunum.