154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:21]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Hún kom inn á árangurstengda fjármögnun sem ég minntist líka á. En það sem ég er að reyna að koma að er að vandi háskólanna og ástæðan fyrir því að þeir mælast svona lágt í þessum gæðakönnunum sé kannski ekki einungis fjárhagslegs eðlis, að ekki sé hægt að leysa þetta vandamál eingöngu með peningum heldur með því að ríkið geri ákveðnar kröfur, t.d. varðandi ráðningar, og taki á veikleikum þeirra sem er eiginlega veikleiki íslensks samfélags í heild, þ.e. að við erum svo fá; fámennið, kunningjaskapur, vinatengsl og annað slíkt, og að við reynum að opna fyrir ráðningar, t.d. með aðstoð utan frá. Ég veit að Norðmenn gera það. Þeir fá prófessora frá öðrum ríkjum til að meta aðra prófessora til starfa og tryggja þannig öflugt háskólastarf. Þetta er ekki einungis fjárhagslegt vandamál með gæðin. Ríkið, sem deilir út skattpeningum til þessara skóla, ætti að gera kröfu um að þeir hafi verklag sem tryggir hlutlægni í hvívetna og að þeir nái að fara upp gæðalistann og taki á þeim vandamálum sem þar eru.