154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:52]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Mér fannst nú hv. þingmaður eiginlega snúa þessu svolítið í hring vegna þess að það sem ég sagði í mínu fyrra svari og hef verið að segja í allri þessari umræðu er að við erum að vinna eftir aðgerðaáætlun menntastefnu. Er hv. þingmaður að segja að aðgerðir eins og samhæfing þegar kemur að inngildingu nemenda með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn, efling námsgagnaútgáfu, að byggja upp matsferil, matstæki fyrir m.a. lestur, og aukin þjónusta við kennara þegar kemur að endurmenntun — er hv. þingmaður að segja að ekkert af þessu sé hluti af því að styðja við lestrarkennslu í landinu? Hv. þingmaður, við erum að vinna eftir aðgerðaáætlun. Við erum að forma aðra aðgerðaáætlun sem byggir á samþykkt Alþingis, menntastefnu til 2030. Þannig munum við vinna áfram og aðgerðirnar sem við erum að ráðast í núna eru þannig að umfangi að við þurfum að fylgja þeim fast eftir. (EÁ: Hvað með aðalnámskrá?) Endurskoðun aðalnámskrár er hluti af þeirri vinnu.