154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:24]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Hjá þeim sem þurfa að fara oft í sjúkraþjálfun er kostnaðurinn umtalsverður, aukakostnaðurinn getur farið upp í tugi þúsunda króna. Og það eru margir sem ég veit um sem hafa neitað sér um slíka þjónustu vegna þess að þeir hafa hreinlega ekki efni á því. Það er grafalvarlegt mál vegna þess að það er hætta á að þeir einstaklingar endi inni á dýrasta úrræðinu sem er á sjúkrahúsi.

Það er annað sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um. Nú höfum við 154 fatlaða einstaklinga inni á hjúkrunarheimilum sem er algerlega ólíðanlegt. Við getum ekki leyft okkur að vera með 40–50 ára einstaklinga inni á heimili þar sem meðalaldur er 80 ár. Hver er framtíðarsýnin í því? Ég sá ekkert nefnt í fjármálaáætlun framtíðarinnar um það hvernig eigi að leysa vandamál þess hóps.