154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:27]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Ég vil byrja á að endurtaka nokkuð sem hefur nokkuð oft hefur verið nefnt á síðustu árum, sem er misræmið sem felst í því að geðheilbrigðismál spanna u.þ.b. þriðjung af allri heilbrigðisþjónustu á Íslandi og þeim heilbrigðisvanda sem við stöndum frammi fyrir en þó fara bara 5% fjármögnunar í málaflokkinn.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra út í þær fyrirætlanir sem er ekki að sjá í þessari fjármálaáætlun sem sannarlega er stefnumótunarplagg ríkisstjórnarinnar varðandi nauðung í heilbrigðisþjónustu. Við vitum að nauðung er beitt í heilbrigðisþjónustu á Íslandi í þjónustu við eldra fólk, í þjónustu við fatlað fólk og ekki síst í þjónustu við fólk með geðraskanir. Í fjármálaáætluninni er hvergi minnst á nauðung og því síður á fyrirætlanir um að binda endi á nauðung í heilbrigðisþjónustu. Nauðung í heilbrigðisþjónustu er úrræðaleysi, ekki úrræði. Hún er aldrei úrræði. Í ofanálag við það að vera réttindamál hefur verið bent á það að nauðung, þvinganir og ofbeldi, fer ekki saman við læknandi meðferð af neinu tagi.

Eins og ég hef ítrekað bent á, m.a. hæstv. ráðherra, hefur Evrópuráðið t.d. gefið út leiðbeiningar til ríkja um það hvernig hægt er að byggja upp heilbrigðiskerfi algerlega laust við þvinganir og nauðung. En mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra svolítið út í þetta þar sem þetta kemur hvergi fram í skjalinu. Í skjalinu er minnst á uppbyggingu nýrrar geðdeildar. Mig langaði til að spyrja hæstv. ráðherra hvort við uppbyggingu nýrrar geðdeildar, við það að finna henni nýja staðsetningu og annað, verði komið til móts við það að ástæðan fyrir því að nauðung er beitt í geðheilbrigðismálum (Forseti hringir.) er sú að starfsfólk er ekki með þau verkfæri og býr ekki við þær aðstæður í sínu starfi að hægt sé að binda endi á nauðung. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort það standi til að taka á þessu.