154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:29]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur fyrir að taka þetta mál hér upp, er varðar nauðung. Mig langar að rifja þetta ferli upp. Hv. þingmaður kom inn á mikilvægi þess að við virðum alþjóðasáttmála Evrópuráðsins og Sameinuðu þjóðanna á þessu sviði. Við fólum umboðsmanni Alþingis að fara með OPCAT-eftirlit, sem er valfrjáls bókun við samning Sameinuðu þjóðanna, um að berjast gegn nauðung og vanvirðandi meðferð og ofbeldi á hverju sviði.

Forveri minn lagði fram frumvarp þessa efnis til að mæta áskorunum umboðsmanns fyrir réttum fjórum árum, eða þremur, á því löggjafarþingi. Það fór í gegnum nefnd en kláraðist ekki í þinginu vegna þess að það var gagnrýnt verulega en það kjarnaðist einmitt um hugtakið nauðung, hvernig því væri háttað. En það er skortur á lagastoð fyrir því þegar þær kringumstæður koma upp.

Ég kom síðan með það frumvarp hér breytt út frá þeim umsögnum sem höfðu borist hv. velferðarnefnd. En það voru mjög mikil andsvör við því hér í þinginu, viðbrögð, þegar í 1. umræðu. Ég afturkallaði því það frumvarp og fór með það í gagngert samráð, ekki síst með öllum notendum á þessu sviði og samtökum notenda; við fórum í mjög víðtækt samráð.

Nú er ég með frumvarp sem er að koma hér inn í þingið. Ég vænti þess að við getum tekið umræðu um það en það snýr að öllum þeim þáttum sem hv. þingmaður kom inn á.