154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:53]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir mjög góðar spurningar, stórar spurningar sem þetta á auðvitað að snúast um. Hann setur mál sitt í þann búning að hér séu fagrar lýsingar en kannski vanti aðgerðirnar á bak við. Þá ætla ég bara að taka dæmi, af því að við höfum á starfstíma þessarar ríkisstjórnar lagt áherslu á að auka samvinnu í kerfinu og að nýta hið blandaða kerfi. Ég get tekið dæmi um styttingu biðlista, til að mynda í það sem ég hef kallað lýðheilsutengdar aðgerðir. Þar höfum við náð miklum árangri. Við höfum aukið afköstin á skurðstofum á opinberu stofnunum samhliða því að taka valkvæðar aðgerðir í gegnum útboð Sjúkratrygginga. Við erum raunverulega að nýta allt kerfið. Það hefur aukið afköstin á skurðstofunum, það hefur stytt biðlistana þar. Auðvitað var uppsafnað í gegnum heimsfaraldur, við þekkjum það alveg, þannig að það var svona kúfur að takast á við. Það fara helmingi færri til útlanda að sækja sér þessa þjónustu, af því að við eigum sérfræðingana hér heima til að gera þetta og ég veit að hv. þingmaður hefur margoft bent á það. Það er mjög gott dæmi um að við erum að auka virkni sjúklinganna og ná niður biðlistum. Við höfum náð niður biðlistum í geðheilbrigðiskerfinu, af því að hv. þingmaður kom líka inn á það, með aukinni fjármögnun og breyttu skipulagi, t.d. á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Við hyggjumst ná því fram víðar. Ég hef boðað aðgerðir í að efla heilbrigðisþjónustuna á landsbyggðinni á fjölmarga vegu. Við fórum ákveðna leið varðandi Landspítala – háskólasjúkrahús og settum stjórn að norrænni fyrirmynd til stuðnings stjórnendum og starfsfólki spítalans. Ég hef í hyggju að fara sömu leið með Sjúkrahúsið á Akureyri til að efla það enn frekar. (Forseti hringir.) Það hefur fjölgað í stöðugildum á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Það hefur margt jákvætt verið að gerast en það er rétt, sem hv. þingmaður (Forseti hringir.) dregur hér fram, að það er mikilvægt að jafna aðgengi að þjónustu (Forseti hringir.) og leita allra leiða óháð búsetu eins og það heitir í stefnunni.

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill minna þingmenn og ráðherra á að gæta að ræðutíma.)