154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:59]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ef ég heyrði rétt þá sagði hæstv. ráðherra að helmingi færri færu til útlanda af því að við eigum sérfræðinga hér innan lands. Kannski ætti ráðherrann að horfa sér nær, horfa innan lands vegna þess að sérfræðigreinum er að fækka á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Ég ætla að halda áfram með það. Ef ekkert gerist nema bara að hallinn sé bættur upp og ekki bætt inn í rekstrargrunninn þá mun halda áfram að molna undan þessu. Það er enginn nýrnalæknir fyrir norðan en þrátt fyrir það eru nýrnalæknar tilbúnir til þess að koma og vinna. Það eru tæki og aðstaða til staðar. Það eru a.m.k. 250 nýrnasjúklingar sem þurfa að fara suður á ári til nýrnalæknis og flest þurfa þau að hafa með sér fylgdarmann með öllum þeim kostnaði sem því fylgir. Nýrnalæknar hafa með öðrum orðum boðist til að koma og bjóða þjónustu á tveggja vikna fresti á Sjúkrahúsinu á Akureyri en því tilboði hefur verið hafnað vegna fjárskorts. Hvort það er Sjúkratryggingum að kenna eða ráðuneytinu verður ráðherra að kveða upp úr með, en það er auðvitað ekki hægt að sætta sig við einhvern innanhússvanda hjá hinu opinbera þar sem aðilarnir vísa bara hver á annan. Núverandi ástand þar sem þúsundir sjúklinga eru fluttar til Reykjavíkur í meðhöndlun þegar hægt væri að fljúga nokkrum læknum nokkrum sinnum á ári til þess að sinna þeim heitir einfaldlega á íslensku að spara aurinn en kasta krónunni. En kannski er hæstv. ráðherra ekki upptekinn af því vegna þess að sá kostnaður fellur á sjúklinga. Hvað ætlar ráðherra að gera? Mun hann koma með þessa 1,3 milljarða sem ég spurði hann um áðan? Hann hefur núna haft klukkutíma til að hugsa sig um.