154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:04]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn sem snýr að Sjúkrahúsinu á Akureyri. Ég er auðvitað með langan lista af verkefnum sem við höfum stigið inn í með sjúkrahúsinu. Þetta verkefni, eins og hv. þingmaður stillir því upp, varðandi blóðskilun — auðvitað blasir það við hverjum manni að ef það er hægt að veita þjónustuna fyrir norðan þá eðlilega gerum við það (Gripið fram í.) og styðjum það (Gripið fram í.) og það verður þá bara að leysa það og stíga inn í það. Ég bara tek það með mér úr þessu samtali að kanna af hverju það hefur ekki verið gert en ég hef ekki þær upplýsingar tiltækar. En ég get rakið hér, eins og ég hef áður gert, fjölmörg verkefni sem við stígum inn í og fjármögnun með sjúkrahúsinu og við þurfum síðan að finna út þessa varanlegu fjármögnun sem þarf og upp á vantar og erum með hóp í ráðuneytinu ásamt Sjúkrahúsinu á Akureyri, vegna þess að markmiðið er allt eitt og hið sama: Við viljum svo sannarlega tryggja sérgreinaþjónustu á Sjúkrahúsinu á Akureyri, (Forseti hringir.) okkur er mikill akkur í því. Það er nauðsynlegt, eins og við erum að gera, að byggja upp heilbrigðiskerfið okkar. (Forseti hringir.) En það er auðvitað alveg tilefni til sérstakrar umræðu hvernig við mönnum (Forseti hringir.) heilbrigðisþjónustu og bara aðra þjónustu úti á land inn í framtíðina. (Forseti hringir.) Það verður bara með hverju árinu á fjölmörgum sviðum sífellt þyngra undir fæti.