154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:13]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst og fremst þakka hv. þm. Tómasi A. Tómassyni fyrir að taka þetta málefni upp með þessu innleggi í umræðuna. Ég minntist á alla þá stefnumótunarvinnu sem er í gangi. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni, við þekkjum þessa stóru lýðheilsuógn. Í stefnumótunarvinnunni er áhersla lögð á að byggja á gagnreyndri þekkingu og taka mið af mismunandi þörfum ólíkra hópa. Þetta er flókið, þetta er flókinn sjúkdómur. Fólk er á mjög misjöfnum stað á sinni ævi, á misjöfnum stað félagslega, fjölskyldulega og í aldri; ungmenni, kynin, aldraðir, einstaklingar með alvarlegan langvinnan vanda. Við hyggjumst taka vel utan um þetta.

Við þurfum að fjölga meðferðarplássum. Við þurfum að taka á þeim flöskuhálsi sem afeitrun getur verið. Við erum að vinna hraðar í því núna en að bíða eftir niðurstöðunum. Í Krýsuvík er til að mynda verið að fjölga rýmum úr 21 í 28, það mun liðka til. Við þurfum að taka það í gegnum allt kerfið okkar. Það er mikil vinna í gangi og ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta málefni upp.