154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:14]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Ég er á svipuðum slóðum og hv. þm. Tómas A. Tómasson. Í fjármálaáætlun er lítið fjallað um einstaklinga með fíknisjúkdóma og þær lausnir sem boðnar eru hvað það varðar, þ.e. í öðrum köflum en þeim er varða löggæslu. Í kaflanum sem varðar heilbrigðismál er m.a. talað um að hið miðlæga lyfjakort muni vakta sérstaklega ávísun lækna á ávana- og fíknilyf. En við vitum öll að það að takmarka framboðið leysir vitanlega ekki vandann. Þá er talað um, sem er vel, að tryggja aðgengi að lífsbjargandi lyfjum, tryggja öllu framlínustarfsfólki aðgengi að þeim. Ég má hins vegar til með að benda á að til þess að framlínustarfsmenn með lífsbjargandi lyf geti bjargað lífi þurfa framlínustarfsmenn að hafa aðgang að þeim einstaklingum sem lenda í neyð. En við vitum að einn helsti vandinn í dag hvað það varðar, dauðsföll sem við erum að horfa upp á, er ekki síst vegna þess erfiða samspils sem er á milli löggæslu og heilbrigðiskerfis í þessum málum.

Í fjármálaáætlun er talað um viðhaldsmeðferð við ópíóíðafíkn, að tryggja þurfi aðgengi að henni. Ég tek undir það allt saman. Það sem veldur vonbrigðum er auðvitað að í þessari fjármálaáætlun er ekki að sjá neina viðhorfsbreytingu eða stefnubreytingu. Hæstv. ráðherra hefur talað um nýja stefnumótun í þessum málum en því miður fer minna fyrir henni en ég og margir aðrir hefðum viljað sjá í þessari áætlun. Þar er ekkert um að auka fjölbreytni í úrræðum fyrir einstaklinga með fíknivanda og ekki er að sjá að verið sé að breyta viðhorfi kerfisins (Forseti hringir.) með þeim hætti að fíknivandi sé heilbrigðisvandamál sem eigi ekki heima í refsikerfinu.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Eigum við von á því að sjá fjármögnun á einhverjum viðhorfsbreytingum (Forseti hringir.) sem koma vonandi út úr þeirri stefnumótun sem er í gangi? — Ég geymi hina spurninguna.